150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

vextir og verðtrygging.

13. mál
[16:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Þetta er áhugavert frumvarp sem er hægt að ræða lengi. Eins og heyrðist á ræðu hv. þingmanns er um margt að fjalla. Ég get ekki sagt að ég sé á móti frumvarpinu en ég er ekki alveg sannfærður um að ég sé fullkomlega sammála öllu í því heldur. Mér finnst margt þar nýstárlegt eins og það að binda nafnvexti af verðtryggðum lánum við 2%. Ekki endilega galin hugmynd, myndi ég segja, út frá sömu röksemdafærslum og hv. þingmaður nefndi, en það sem fær mig til að efast verulega um ágæti þess að samþykkja þetta mál er það að taka húsnæðisliðinn út úr verðtryggingarútreikningunum núna á þessum tímapunkti.

Eins og við sáum í hruninu og bent er á í umsögn Seðlabankans við sama mál, þegar það var flutt síðast, og sömuleiðis sambærileg mál sem voru flutt áður, þar á meðal af hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, hefur húsnæðisverð tilhneigingu til að hækka mun hraðar en verðlag þegar allt gengur vel í hagkerfinu, hagvöxtur er viðvarandi og verðbólga lág. Það er nákvæmlega það sem við höfum séð á síðustu góðærisárum. Það veldur því að fólk fer að sjá að ef húsnæðisliðurinn væri ekki þarna inni myndu lánin ekki hækka jafn mikið. En hins vegar gerist akkúrat hið þveröfuga í áfalli eins og gerðist 2008–2009 og er að gerast núna. Þótt við séum ekki að upplifa hrun er vissulega kuldi á fasteignamarkaði og verð er að fara niður ef eitthvað er, það er í það minnsta ekki að fara upp. Í slíkum kringumstæðum kemur það lántakendum illa að hafa húsnæðisliðinn ekki inni. Með öðrum orðum: Undir þeim kringumstæðum sem voru í hruninu, og við erum að sigla inn í nú, hefur húsnæðisliðurinn hemjandi áhrif á vísitöluna. Ég hef áhyggjur af því að ef við myndum (Forseti hringir.) lögleiða þetta frumvarp núna værum við að gera lántakendum grikk ef markmiðið væri að halda aftur af lánunum þeirra, út af tímasetningunni en ekki út af eðli málsins í sjálfu sér.