150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

vextir og verðtrygging.

13. mál
[16:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir framsögu á mjög mikilvægu máli sem varðar alla landsmenn. Verði þetta frumvarp að lögum er það hagur allra og mjög mikilvægt er að svo verði. Við þekkjum það, herra forseti, að almenningur á Íslandi hefur árum saman verið í fjötrum verðtryggingar og hárra vaxta á húsnæðislánum. Vextir hér eru almennt mun hærri en í nágrannalöndum okkar og ekki þarf að fara lengra en til Færeyja til þess að fá mannsæmandi húsnæðisvexti — við skulum orða það þannig.

Verðtryggingin var sett á fyrir u.þ.b. 40 árum og eins og komið hefur fram voru efnahagsaðstæður á Íslandi allt aðrar en þær eru í dag. Það var ástæða fyrir því að verðtrygging var sett á á sínum tíma, verðbólga var mikil og ástandið í efnahagsmálum slæmt. Verðbólgan var u.þ.b. 60% þegar verðtryggingin var sett á og óstöðugleiki í efnahagsmálum mikill. Í dag búum við eins og við þekkjum við allt aðrar aðstæður. Verðbólga er rétt undir 3% eða svo. Hér ríkir stöðugleiki í efnahagslífinu, sem er jákvætt. Allar aðstæður í dag segja okkur að verðtryggingin eigi engan rétt á sér, ef við berum þær saman við þann tíma þegar verðtryggingin var sett á. En engu að síður búum við enn við verðtryggingu. Í þessum ræðustól hefur margsinnis verið rætt um mikilvægi þess að minnka vægi verðtryggingarinnar á íslenskum fjármálamarkaði. Stjórnmálaflokkar lofa því reglulega, og þá einkum í aðdraganda kosninga, að afnema verðtryggingu, draga úr vægi hennar en óskaplega lítið gerist í þeim efnum og er það miður. Nú eru vextir á Íslandi tiltölulega lágir í sögulegu samhengi en engu að síður mjög háir ef við berum okkur saman við nágrannalöndin þegar kemur að húsnæðismálum. Þingheimur verður að sameinast um að breyta þessu svo að ungt fólk geti eignast húsnæði án þess að vera í skuldaklafa áratugi eftir að það kaupir sitt fyrsta húsnæði.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það skorti bara ákveðna djörfung og skörungsskap til þess að afnema verðtrygginguna. Ég held að stjórnmálamenn séu ragir við að stíga það skref. Þeir ræða eflaust við einhverja ráðgjafa sem ráðleggja þeim það, en hins vegar, þegar menn horfa á þetta í sögulegu samhengi, er alveg ljóst að aðstæður eru allt aðrar í dag — og það eru nægileg rök til þess að afnema verðtrygginguna. Þetta frumvarp, sem ég er auk þess meðflutningsmaður að, er þess vegna mjög mikilvægt og skynsamlegt til að draga úr vægi verðtryggingar.

Í greinargerð með frumvarpinu á bls. 4 er athyglisverð umfjöllun um ofmat vísitölu neysluverðs. Það er almennt viðurkennt að vísitala neysluverðs ofmetur almennar verðlagshækkanir. Það ofmat getur hins vegar kostað íbúðareigendur og þá sem eru með verðtryggð lán verulegar fjárhæðir og er talið að þær geti verið á bilinu 5–25 milljarðar, miðað við að verðtryggðar skuldir heimilanna nemi um 1.700 milljörðum eins og fram kemur í greinargerðinni. Þessa skekkju og þetta ofmat þurfa lántakendur, heimilin í landinu, að bera og borga. Hér er einfaldlega verið að auka skuldir heimilanna með mjög vafasömum hætti. Hvað réttlætir að lántakendur þurfi að greiða fyrir skekkju í mælingum? Þetta mál hefur fengið allt of litla athygli og ég vil þakka flutningsmanni frumvarpsins, dr. Ólafi Ísleifssyni, sérstaklega fyrir að vekja athygli á þessu máli. Maður spyr sig: Hvers vegna er ekkert tekið tillit til þessarar skekkju af hálfu lánveitenda, bankanna, Íbúðalánasjóðs? Hér er um hreina og klára eignatilfærslu að ræða og sumir myndu nú nánast kalla þetta þjófnað, ef þannig má orða það, herra forseti. Þetta er skekkja og auðvitað á lánveitandi að bera þá skekkju en ekki sá sem tekur lánið. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið á heildarskekkju í vísitölumælingum benda til þess að hún sé jákvæð og vísitölumælingar ofmeti því verðbólgu. Aldrei eru þessar skekkjur neikvæðar þannig að þær vanmeti verðbólguna og lántakendur borgi minna. Það er kannski svolítið einkennileg tilviljun að svo skuli ekki vera.

En þetta er alvarlegt mál fyrir almenning á Íslandi sem býr í þeim fjötrum sem verðtryggingin er og hér hefur verið lýst. Ég tel brýnt að fara í nánari rannsóknir á þessu viðfangsefni, ofmati á vísitölunni, vegna þess að það varðar mikla hagsmuni og kemur flestum við. Það er mikilvægt að gera ítarlega úttekt á skekkju á vísitölu neysluverðs á Íslandi og fá mat á heildarupphæðum sem um er að ræða. Slík rannsókn mun tryggja nákvæmari mælingar vísitölunnar og það er heimilunum mjög mikilvægt. Það er mikilvægt að vel verði staðið að slíkri rannsókn á heildarskekkju í vísitölumælingum svo að niðurstöðurnar verði áreiðanlegar og hlutlausar þannig að þær verði almennt viðurkenndar. Þetta er mál sem hefur, eins og ég sagði áðan, ekki farið hátt, verið hálfpartinn falið, ef svo má að orði komast, en getur haft gríðarleg áhrif.

Kannski er rétt að nefna það hér að öldungadeild Bandaríkjaþings hefur látið rannsaka hlutverk vísitölu neysluverðs í velferðarkerfi ríkisins til að veita ábendingar um það sem betur mætti fara. Niðurstaðan varð sú, sem er athyglisvert, að skekkja í vísitölumælingum væri líklega meiri nú en áður vegna fjölda nýjunga í efnahagslífinu, örari tækniþróunar og aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu og gæðum o.s.frv. sem allt gerir mælingar á vísitölunni flóknari. Nýjungarnar voru áður teknar inn í vísitöluna með mun meiri töf, ef svo má orða það, en gengur og gerist í dag. Oft voru vörur komnar í almenna notkun á meiri hluta heimila áður en þær urðu að grunni í vísitölu neysluverðs. Það er mikill veikleiki vísitölunnar að hún tekur ekki tillit til þeirrar staðreyndar að neytendur hafa tilhneigingu til þess að versla minna af vörum sem hafa hækkað hlutfallslega í verði og meira af vörum sem eru orðnar hlutfallslega ódýrari. Flestar rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt að heildarskekkja í vísitölumælingum bendir til þess að hún sé jákvæð og vísitölurnar ofmeti þannig verðbólguna, eins og ég nefndi áðan. Og með tímanum breytist neyslumynstur heimilanna. Grunnurinn sem mælir vísitöluna hættir að endurspegla neyslusamsetningu. Vogirnar sem mæla þennan grunn þarf því reglulega að aðlaga og breyta vegna neyslusamsetningar.

Við fáum afskaplega litlar fréttir af því hversu reglulega þetta er uppfært hér á landi. Gerðar eru svokallaðar úrtakskannanir á vöruflokkum. Verðupplýsingum er safnað reglulega saman meðan við vitum lítið um það hvenær vogirnar, þ.e. mælikvarðinn sem mælir vísitöluna sem síðan verður til þess að hækka verðtryggðu lánin, eru í raun og veru metnar. Þegar við kaupum eldsneyti á bensínstöð er þar fullkominn tölvubúnaður sem mælir magnið sem við kaupum og dælum á bílinn. Þessi búnaður er mjög reglulega yfirfarinn af Löggildingarstofu. Við treystum því að við fáum það magn sem við borgum fyrir. En olíufélögin vilja að sjálfsögðu ekki láta okkur fá meira magn en við borgum fyrir. Það gerist aldrei. Það er vel passað upp á það. Vegna þess að það er tæki sem mælir þetta. En hins vegar þegar búnaður sem mælir vísitöluna mælir hana of háa, sem rannsóknir hafa sýnt að iðulega gerist, er það almenningur sem á að borga það í formi hækkunar á lánum. Í þessu felst hróplegt óréttlæti. Það er bara svo einfalt. Fasteignalán eru síðan tryggustu lán sem hægt er að veita. Veð í fasteign eru almennt talin bestu veðin og eins og segir í greinargerðinni með frumvarpinu ættu viðtekin viðmið um áhættu og ávöxtun að leiða til þess að slík lán beri lægri vexti en almennt gerist í ljósi hinnar miklu tryggingar sem lánveitandi nýtur um verðgildi höfuðstóls og öryggis um endurheimt höfuðstóls. Lánveitandinn er samkvæmt þessu fullkomlega öruggur um að hann fái allt sitt til baka. Ég vil taka heils hugar undir það sem kemur fram í greinargerðinni og því miður er ekkert tekið tillit til þeirra miklu trygginga sem lánveitandi fasteignaláns býr við, þ.e. að veðið er öruggt og síðan er verðtrygging ofan á allt saman, vextina, þannig að lánveitandinn er algerlega öruggur. Verði einhver áhætta, breyting á efnahagsmálum, hækkun verðbólgu, skekkja í vísitölunni o.s.frv., er það alltaf lántakinn, íbúðareigandinn, sem þarf að bera þá áhættu og það er ekki sanngjarnt, herra forseti. Þegar við horfum á þá skekkju sem ég nefndi, sem getur varðað verulegar upphæðir, er hrópleg ósanngirni í því að lántakar skuli þurfa að bera hana.

Þetta er sem sagt klassískt dæmi um þann mikla aðstöðumun sem ríkir á Íslandi milli lántaka annars vegar og lánveitanda hins vegar. Við verðum hér í þessum sal að sameinast um að breyta þessu. Nú eru ríkjandi efnahagslegar aðstæður, og hafa verið um nokkra hríð, sem mæla með því að við getum tekið á verðtryggingu, þeirri meinsemd sem við öll þekkjum og tíðkast nánast hvergi á byggðu bóli, allra síst í nágrannalöndum okkar.

Að lokum, herra forseti: Þetta er mjög mikilvægt frumvarp fyrir heimilin í landinu. Það er afskaplega vel unnið og við Miðflokksmenn erum stoltir af því að geta staðið að þessu frumvarpi. Því fylgir ítarleg greinargerð sem ber fyrst og fremst vott um þekkingu og skynsemi þess sem hefur unnið hana, fyrsta flutningsmanns, hv. þm. Ólafs Ísleifssonar. Ég fagna frumvarpinu sérstaklega og tek undir það sem hér hefur komið fram. Ég vona að það muni njóta víðtæks stuðnings í þinginu og verða að lögum, almenningi til heilla.