154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:25]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra fjallaði um áðan, að hann ætlaði sér að skoða hvernig hægt væri að tryggja að launatekjur væru ekki greiddar út sem fjármagnstekjur. Í Noregi er einmitt svipað módel þar sem tryggt er að þeir sem greiði sér út slíkt borgi tekjuskatt af því. Mig langar að byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra hvenær hann reiknar með að leggja fram frumvarp um þetta.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um þessa breytingu sem við sjáum í því hvernig fólk fær greidd laun eða hagnað. Við sjáum þetta kannski á einfaldastan hátt með því að skoða tekjublöðin, sum tekjublöðin skoða tekjuskatt en önnur skoða bæði tekju- og fjármagnstekjuskatt og topp 50 listinn yfir sitthvort er mjög mismunandi. Maður sér að þetta hefur meira og meira flust yfir í það að fólk greiði sér út fjármagnstekjur og Hagstofan hefur einmitt bent á það. Þetta hefur líka áhrif á tekjur sveitarfélaga vegna þess að sveitarfélögin fá ekki hluta af fjármagnstekjunum á meðan þau fá að sjálfsögðu útsvarið, sem er hluti af tekjusköttunum. Mig langar því einnig að spyrja hæstv. ráðherra um það hvernig hann telur að hægt sé að bæta tekjustofna sveitarfélaga sem eru að fá lægri og lægri útsvarstekjur vegna þessara breytinga.