135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

Vegagerðin.

[15:14]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég dáist að hæstv. ráðherra hvað hann kann vel þessar tölur allar en það var ekki aðalatriðið í mínum huga að fá þær með þeim hætti sem þær komu fram, heldur að vita hver stefna hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar er varðandi þessa stofnun. Ég trúi því ekki að þetta útspil frá hv. þm. Ólöfu Nordal hafi bara verið til heimabrúks. Það hlýtur að hafa verið eitthvað meira á bak við það, að þetta hljóti að vera í undirbúningi.

Ég held því fram að því fylgi mikil völd að vera með höfuðstöðvar en eins og nú er þá eru höfuðstöðvar Vegagerðarinnar í Reykjavík. Þess vegna vil ég benda t.d. Samtökum um betri byggð, sem hafa kvartað undan því að samgöngunefndarmenn séu fyrst og fremst af landsbyggðinni, sex af níu, á að því fylgja mikil völd að hafa höfuðstöðvar. Og ég væri tilbúin að skrifa undir það, ef höfuðstöðvarnar færu til Akureyrar, að Norðausturkjördæmi þyrfti ekki að hafa neinn mann í samgöngunefnd, þetta væri okkur svo mikilvægt.