139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um að auka þorskveiðiheimildir um 35 þús. tonn. Ég verð að segja að þegar ég horfi á atkvæðatöfluna veldur það mér miklum vonbrigðum að margir hv. þingmenn, sem hafa tekið undir það að bæta hér við þorskveiðiheimildum, skuli renna á rassinn þegar atkvæði eru greidd um tillöguna. Það segir manni að ekki fylgi alltaf hugur máli. Ekki þarf að hafa mörg orð um hvað það mundi þýða fyrir þjóðarbúið að bæta hér við fiskveiðiheimildum, bæði upp á beinar tekjur fyrir ríkissjóð og eins óbeinar, bæði fyrir ríkissjóð og sveitarfélögin. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi tillaga verði samþykkt. Ef við þurfum ekki að skapa störf og verðmæti núna á þessum tíma, hvenær þurfum við þess þá?

Í öðru lagi er engin áhætta tekin með þessum tillögum, það er einungis verið að hækka aflaregluna úr 20% í 23% vegna þess að þorskstofninn er mjög sterkur. Samt sem áður munum við halda áfram að byggja upp þorskstofninn (Forseti hringir.) en vonbrigði mín eru mikil miðað við yfirlýsingar margra hv. þingmanna. [Kliður í þingsal.]