139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir málefnalega ræðu þó að ég sé ekki alls kostar sammála henni. Ég vil byrja á því að segja að ég skil ekki alveg breytingartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í þessu samhengi. Hún horfir ekki á þann megingrundvöll sem þingsályktunartillagan sem meiri hlutinn afgreiddi byggir á.

Ég finn mig knúna til að koma upp vegna samanburðar hv. þingmanns á stöðu Seðlabankans í kjölfar hrunsins og Íbúðalánasjóðs. Þeim samanburði átti ég ekki upptök að í þessum ræðustól heldur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Ég geri ráð fyrir að hún hafi gert það af því að henni hafi þótt hún koma þar við snöggan blett á þeirri sem hér stendur eða eitthvað slíkt því að hún sagði það í því samhengi.

Nú er það svo að ég skammast mín fyrir veru mína í seðlabankaráði og skammast mín fyrir að hafa verið ein af þeim fjölmörgu sem ekki stóðu vaktina með viðunandi hætti. En að væna mig um að vera með einhvern samanburð þarna á milli, ég get ekki setið undir því. Ég bendi á að þó að Íbúðalánasjóður sé í allt öðrum sporum en Seðlabankinn þá eru þeir 33 milljarðar sem við samþykktum hér þess eðlis að ef við ætlum að láta eins og ekkert hafi í skorist og teljum ekki ástæðu til að skoða hvernig þetta sé til komið og hvernig við eigum að haga málum í framtíðinni þá finnst mér það heldur dapurlegt og tel rétt að fram komi að ég samþykkti einmitt ásamt öðrum þingmönnum, öllum 63, rannsókn á Seðlabankanum, (Forseti hringir.) enda tel ég það mjög nauðsynlegt.