140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

fjar- og dreifnám.

432. mál
[16:56]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera örstutta athugasemd en þó góða og þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að taka þetta brýna mál upp, sem og menntamálaráðherra fyrir svör hennar.

Í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, hefur reynt á þetta á Þórshöfn þar sem samstarf hefur verið á milli Þórshafnarskóla og Menntaskólans á Laugum. Það samstarf hefur gengið gríðarlega vel. Þetta þýðir að krakkar sem annars hefðu þurft að flytja í burtu og fara í heimavistarskóla hafa getað búið heima hjá sér nokkur ár í viðbót. Fyrir lítil þorp, þaðan sem fólk flytur gjarnan og kemur þá ekki aftur, skiptir þetta gríðarlega miklu máli. Ég hvet því hæstv. menntamálaráðherra að halda áfram á þessari braut því að ég veit að þetta hefur virkað vel annars staðar líka — sem og hæstv. fyrirspyrjanda að halda þessu málefni (Forseti hringir.) á lofti.