141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

lög um framhaldsskóla.

[14:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þegar Alþingi og allir flokkar samþykktu á sínum tíma lögin um leik-, grunn- og framhaldsskóla var meðal markmiða í fyrsta lagi að minnka brottfall, í öðru lagi að efla iðn- og starfsnám og í þriðja lagi að efla og auka möguleikana á að stytta námstíma til stúdentsprófs. Allir flokkar voru sammála um að þetta væru stóru markmiðin og menn samþykktu lögin samhljóða á sínum tíma.

Um daginn skilaði nefnd á vegum hv. þm. Skúla Helgasonar niðurstöðu sem felur nákvæmlega í sér þessi markmið laganna, þ.e. að minnka brottfallið, efla iðn- og starfsnám en ekki síst stytta námstíma til stúdentsprófs. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra í fyrsta lagi hvort hún taki ekki undir meginniðurstöðu þessa starfshóps sem er að undirstrika gömul sannindi og ný sem, eins og ég sagði áðan, lögin fela í sér og í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra, við höfum reyndar áður tekist á um þetta efni, hvort okkur sé þá ekki í lófa lagið að flýta gildistöku þeirra ákvæða í framhaldsskólalögunum sem hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutinn frestaði fram til 1. ágúst 2015. Það varðar þann þátt framhaldsskólalaganna sem einmitt kemur til móts við það að minnka brottfallið, efla iðn- og starfsnám og síðast en ekki síst stytta námstíma til stúdentsprófs.

Þess vegna er eðlilegt í ljósi niðurstöðu þessarar skýrslu sem er unnin undir forustu eins af stjórnarþingmönnunum að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé rétt að taka undir þessi meginsjónarmið skýrslunnar. Í öðru lagi: Er ekki rétt að taka þátt í því með að minnsta kosti okkur í Sjálfstæðisflokknum að flýta gildistöku þessara laga til þess einmitt að við förum að vinna markvisst að því að minnka brottfallið, efla iðn- og starfsnám og stytta námstíma til stúdentsprófs?