143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mjög mikilvæg spurning sem hv. þingmaður ber hér fram, með hvaða hætti við getum í rauninni útskýrt þetta mál og hvað geti verið í húfi. Ég ætla að reyna að gera það með eftirfarandi hætti. Það er stundum sagt þegar við erum að ræða landsbyggðarmál að umræðan sé úrelt vegna þess að það sé ekki lengur spurning um hvort unga fólkið okkar fari af landsbyggðinni og flytji suður heldur sé spurningin hvort okkur takist að halda unga fólkinu okkar á Íslandi í samkeppni við önnur lönd.

Við skulum aðeins velta einu fyrir okkur: Er mjög líklegt að menn mundu telja það eftirsóknarverðan kost að búa í landi þar sem nánast allir byggju í smáborg með 300 þús. íbúum? Þó að Reykjavík sé frekar stór staður samanborið við aðra staði hér á landi þá er Reykjavík bara pínulítill staður, álíka og bærinn Coventry í Englandi sem hefur sennilega ekki verið þekktur fyrir að draga til sín fólk alls staðar að úr heiminum. Ég held nefnilega að Ísland hafi aðdráttarafl sakir þeirra hluta að þar er fjölbreytni. Hluti af þessari fjölbreytni er auðvitað að fólk býr við margs konar aðstæður og stundar margs konar starfsemi víða á landinu. Lítill 300 þús. manna bær á afmörkuðum stað á Ísland mun ekki verða mikill segull til þess að draga til landsins ungt og metnaðarfullt fólk, auðvitað ekki. Hluti af styrkleika Íslands er þessi fjölbreytni.

Tökum annað dæmi: Ferðaþjónustan er að byggjast upp. Hún er sú atvinnugrein sem byggist hraðast upp á Íslandi. Hún byggist ekki upp vegna þess að segullinn sé Reykjavík, hún byggist upp vegna þess að (Forseti hringir.) segullinn er Ísland með sinni fjölbreytni.