143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:55]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, landið hefur aðdráttarafl vegna þess að við erum með byggð um allt land, við búum hér við ýmsar náttúruperlur sem eru þess virði að skoða.

Mig langaði til að koma aðeins inn á skattalega hvata. Ég er alveg sammála því að það sé ekki rétt að fara þá leið að vera með eitthvað lægri skatta úti á landi af því að það mun draga dilk á eftir sér og þar verða áfram láglaunasvæði o.s.frv. Hins vegar eru ýmsar ívilnanir sem fylgja því að flytjast út á land. Það er liður í því að draga þangað vel menntað fólk. Ég þekki það sem fyrrverandi skólameistari að það er verið að greiða flutningskostnað fyrir fólk, það er verið að greiða niður leigu o.s.frv. Ég ætla ekki að fara dýpra í það. Ég vil þó benda á að það eru svo gríðarlega margir jákvæðir þættir við það að búa úti á landi og landsbyggðin — við erum enn föst í þessum hugtökum, á því hefur ekki orðið nein breyting — býr yfir fjölmörgum tækifærum öðrum en höfuðborgin. Ég tel að höfuðborgarbúar ættu að nýta sér það miklu betur að fara út á land þegar tækifæri gefast til að búa þar, þó að það sé ekki nema um tíma, og upplifa allt það jákvæða sem landsbyggðin hefur upp á að bjóða.