143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[17:43]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta afskaplega gott framtak hjá flutningsmönnum þessarar tillögu og styð þetta heils hugar. Við stöndum frammi fyrir því að hraðinn verður æ meiri í okkar samfélagi, menn þurfa að komast að inntaki upplýsinga á sem skemmstum tíma og við erum með kynslóðir sem eru að vaxa úr grasi og kannski eina kynslóð þar á undan sem eru mjög vanar myndmáli. Þarna er náttúrlega myndmál á ferðinni, maður getur gripið á augabragði hvaða upplýsingar er verið að gefa. Mér fannst það líka dálítið gott sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir talað um áðan að það væri hægt að benda börnunum á að velja kornflex eða morgunkorn með grænu merkingunni.

Ef þetta kemst á, og þetta er auðvitað komið á í Bretlandi og fleiri lönd munu fylgja eftir enda er myndmálið eins og ég sagði áðan að verða meira ríkjandi, þá verður þetta kannski jafn sjálfsagður hlutur og næringartöflur. Ég segi bara fyrir mig að þegar ég er að versla matvæli og sé að það vantar upplýsingar um næringargildi vörunnar pirrar það mig. En mig langar til að spyrja: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að því sé fylgt eftir að varan sé merkt á réttan hátt?