145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Við ræðum fjárlög fyrir komandi ár. Eins og fjárlagafrumvarpið með þeim breytingartillögum sem liggja fyrir frá meiri hluta fjárlaganefndar er ljóst að margt hefur tekist vel þegar kemur að stjórn ríkisfjármála. Því ber að halda til haga. Hitt er svo annað að gríðarlega stór verkefni bíða fjárveitingavaldsins á komandi árum. Það er líka ljóst að hv. alþingismenn þurfa að fara að hugleiða hvort ekki er ástæða til að taka upp aðeins breytt vinnubrögð þegar kemur að ákvörðunum um fjárveitingar og hvernig gengið er frá fjárlögum komandi árs.

Ég hef sjálfur velt því fyrir mér hvort ekki eigi að taka upp A- og B- og jafnvel C-hluta fjárútgjalda ríkissjóðs. Í A-hluta útgjaldanna væru þau útgjöld sem við teldum að tilheyrðu grunnhlutverki ríkisins, þ.e. útgjöld er vörðuðu almannatryggingar, útgjöld til heilbrigðismála, útgjöld til menntamála, útgjöld til innviða, samgöngumála, til löggæslu o.fl., fyrir utan auðvitað stjórnkerfið sjálft. Þetta er grunnhlutverk ríkisins. Það sem út af stendur eru um eða yfir 100 milljarðar sem teljast ekki til grunnhlutverks ríkisins, en það er ekki þar með sagt að ekki séu efnislegar ástæður til að ríkið eða ríkissjóður efni til þeirra útgjalda. Þau eru hins vegar fyrir utan þetta grunnhlutverk. Það sem ég er að reyna að segja er að ég tel að það eigi að hefja þá umræðu hér meðal þingmanna á komandi missirum hvort það kunni að vera skynsamlegt að við breytum vinnubrögðunum með þeim hætti að fyrst tryggjum við nauðsynlega fjármuni í grunnskyldur ríkisins, í almannatryggingar, menntamál, heilbrigðismál, samgöngur og löggæslu. Þegar það er frágengið getum við farið að takast á um útgjöld til annarra málaflokka sem margir hverjir eru vissulega þarfir og verðskulda að þeim sé lagt lið.

Umræðan um fjárlög á hverju ári einkennist af því að menn eru uppteknir af því að horfa bara 12 mánuði fram í tímann og eiga erfitt með að horfa til framtíðar og taka ákvarðanir sem geta hugsanlega verið skynsamlegar til lengri tíma litið og leitt til sparnaðar en auka kannski útgjöldin þegar til skemmri tíma litið. Þessi umræða er engin undantekning. Þetta á ekki síst við þegar kemur að heilbrigðismálum. Menn forðast líka að fara í þá umræðu sem ég tel svo mikilvæga, sem er: Hvert er hlutverk ríkisvaldsins? Til hvers ætlumst við af ríkinu og ríkissjóði? Til hvers erum við sameiginlega að reka ríkissjóð?

Ég hef farið yfir þau hlutverk. Ég tel að það sé skylda okkar að tryggja að ríkið sinni frumskyldum sínum og síðan getum við tekist á um önnur atriði. Gríðarlega stór önnur verkefni blasa við.

Ég var ánægður með að 3. minni hluti fjárlaganefndar skyldi í nefndaráliti sínu, þ.e. hv. þm. Brynhildar Pétursdóttir, vekja sérstaklega athygli á lífeyrisskuldbindingum og þeim erfiðleikum sem blasa við á komandi árum ef við förum ekki að gera eitthvað í þeirri glímu og takast á við lífeyrisskuldbindingarnar. Það skiptir okkur gríðarlegu miklu máli að við náum þeim skuldbindingum niður. Það skiptir börnin okkar mjög miklu máli og barnabörnin ekki síður svo að við séum ekki endalaust að senda reikninginn til þeirra. Þetta verkefni er upp á um það bil 500 milljarða eftir því hvernig við metum það.

Það eru fleiri svona verkefni sem við stöndum frammi fyrir sem eru gríðarlega stór og við erum ekki að takast á um þau. Við tökumst oft og tíðum á um litla hluti hér í þingsal.

Það er uppsöfnuð fjárfestingarþörf hins opinbera og sérstaklega ríkisins í innviðum. Þetta á við um sjúkrahús, hjúkrunarheimili, heilsugæslustöðvar, skóla, svo ég tali nú ekki um vegakerfið, hafnir, fjarskiptakerfið allt saman, að tengja háhraðanet um Ísland er farið að verða eitthvert stærsta byggðamál sem um getur. Það bendir allt til þess að uppsöfnuð fjárfestingarþörf hins opinbera sé um 250 milljarðar kr. Við það bættist á næstu tíu árum eðlilegar fjárfestingar í innviðum, nauðsynlegar fjárfestingar, svo að við höldum vel í horfinu og bætum frekar í. Það eru aðrir 250 milljarðar. Þetta þýðir að á næsta áratug horfum við fram á um og yfir 500 milljarða kr. fjárfestingarþörf í innviðum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Við erum ekki að takast á um það í þessum þingsal hvernig við ætlum að fjármagna það. Það er enginn að ræða um það. Þetta er hins vegar stórt hagsmunamál fyrir almenning og ég sé ekki hvernig við ætlum að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum í sjúkrahúsum, skólum, vegakerfinu o.s.frv. án þess að við vinnum með einkaaðilum með einkaframtaki þannig að þeir komi að fjármögnun þeirra innviðafjárfestinga sem nauðsynlegar eru, aðilar eins og lífeyrissjóðir á almennum markaði.

Þá erum við komin upp í 1 þús. milljarða. Fjárfestingarþörfin næstu tíu ár og síðan lífeyrisskuldbindingarnar sem við þurfum að standa skil á á komandi áratugum eru verulegir fjármunir.

Það er fleira sem við þurfum að gera. Hér hafa fallið stór orð um hækkun á bótagreiðslum til elli- og örorkulífeyrisþega. Auðvitað geta menn sagt að þar sé aldrei of vel gert. Okkur hefur hins vegar ekki tekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í mörg, mörg ár, nefnd eftir nefnd að stokka upp og breyta lögum um almannatryggingar. Við höfum ekki náð saman við að einfalda bótakerfið, sameina bótaflokka ellilífeyrisþega og taka upp starfsgetumat í stað örorkumats, sem er stórkostlegt hagsmunamál fyrir öryrkja. Við ræðum ekki um það. Við ræðum heldur ekki um að þrátt fyrir allt þá muni bætur almannatrygginga verða 17,1% hærri í byrjun næsta árs en þær voru í ársbyrjun 2014, á sama tíma og verðlag hefur verið hækkað hér um rétt um 7,1%.

Það eru hópar, meðal öryrkja sérstaklega, sem eiga mjög erfitt. Við hljótum að spyrja okkur að því hvernig það geti verið að þetta flókna kerfi okkar, sem er dýrt, nái ekki að halda utan um og tryggja þeim sem lökust hafa kjörin viðunandi kjör. Þá kemur að því að kerfið er brotið, það er gallað. Þetta nefnilega snýst ekki alltaf um að setja aukna fjármuni í málaflokka. Þetta snýst um hvernig fjármunirnir eru nýttir og hvernig leikreglurnar eru. Þær eru gallaðar. Alþingi hefur ekki tekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að breyta þessu kerfið sem allir eru sammála um að sé meingallað. Okkur tekst ekki að einfalda það, gera það gagnsætt. Kannski rennur sú tilraun sem nú er í gangi út í sandinn, ekki veit ég það. Ég vona ekki. Sjálfur tek ég þátt í starfi þeirrar nefndar. Ég var vongóður í haust um að okkur tækist að ná samstöðu við alla helstu aðila málsins. Því miður hefur það ekki gengið eftir en ekki er öll von úti.

Það eru fleiri verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið. Við þurfum að endurskipuleggja hvernig við tryggjum að allir landsmenn hafi aðgang að bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma, óháð efnahag og óháð búsetu, eins og kostur er. Við þurfum að horfa til lengri tíma en til eins árs í senn. Það gengur ekki að við treystum okkur ekki til að taka ákvörðun um að veita til dæmis ákveðna fjármuni í að berjast við sykursýki B, áunna sykursýki. Það mundi leiða til stórkostlegs sparnaðar ef við næðum að fækka sykursjúkum um nokkur hundruð. Það mundi leiða af sér nokkur hundruð milljóna sparnað fyrir ríkissjóð á hverju einasta ári í formi lyfjakostnaðar, að ég tali ekki um það sem ekki er hægt að mæla sem eru lífsgæði þeirra sem ná að fá bót meina sinna. En vegna þess að við horfum alltaf eitt ár fram í tímann og neitum að horfa til lengri tíma þá tekst okkur ekki að gera þetta.

Við verðum að fara að huga að því að við stöndum líklegast vitlaust að verki þegar kemur að fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, sérstaklega þegar kemur að fjármögnun sjúkrahúsa og þá fyrst og fremst Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri sem eru hryggjarstykki íslenska heilbrigðiskerfisins. Það er mjög sérstakt að leggja allar þær skyldur sem lagðar eru á Landspítalann og ætla honum síðan að sinna þeim á grundvelli fastra fjárveitinga á hverju ári.

Ég skora á hv. þingmenn að hefja umræðu um það með hvaða hætti við eigum að breyta fjármögnun í heilbrigðiskerfinu, ekki síst þegar kemur að Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Menn geta komið í upphlaupum með yfirboð og boðað nokkra milljarði í viðbót í Landspítalann á næsta ári en það mun ekki leysa grunnvandann. Grunnvandinn liggur í kerfinu okkar; fjármögnunin og hvernig við stöndum að fjárveitingunni er röng. Við þurfum að taka upp kerfi sem byggir á ferliverkum, þ.e. að hafa hluta af fjárveitingum til Landspítalans í formi fastra fjárlaga en þó bara til að standa undir yfirstjórn spítalans, undir fasteignum og öðrum slíkum föstum kostnaði en hafa allt annað á grundvelli samnings milli Landspítalans og Sjúkratrygginga Íslands þar sem samið er um ferliverk. Það getur verið að eitt árið séu framkvæmdar þúsund hjartaþræðingar, nú er ég ekki klár á því hvað þær eru margar á hverju ári en segjum að þær séu þúsund, og þá er borgað samkvæmt slíkum samningi fyrir þúsund hjartaþræðingar. Næsta ár kann að vera að þær verði 1.500. Samkvæmt kerfinu okkar núna þá er spítalanum vandi á hendi. Hann þarf að sinna þessum sjúklingum en fjárhagsramminn sem fjárveitingavaldið hefur búið til gerir honum það næstum því ókleift nema það komi niður á starfsemi spítalans með einhverjum öðrum hætti. Það sem gerist líka ef við tökum upp ferlifjármögnun, fjármögnun á grundvelli samnings milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítalans, er að kostnaðurinn kemur upp á yfirborðið. Þá vitum við hvað hlutirnir kosta. Þá verður auðveldara fyrir fjárveitingavaldið að taka ákvarðanir út frá því.

Í þessu samhengi, þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, þurfum við að huga að heilsugæslunni. Því miður hefur heilsugæslan í mörg ár, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, mætt töluverðum afgangi. Þúsundir höfuðborgarbúa, nákvæmari tölur liggja ekki fyrir, en líklegast eru um 30 þúsund án heimilislæknis. Þessir einstaklingar þurfa í neyð sinni að leita annaðhvort til læknavaktarinnar eða það sem oftar gerist, til Landspítalans. Það eykur álag og kostnað Landspítalans og er dýrasta aðferðin við að sinna þörfum einstaklinga sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Að sama skapi er alveg ljóst að stór hluti af vanda Landspítalans núna er sú staðreynd að við höfum ekki staðið vel að verki þegar kemur að uppbyggingu hjúkrunarheimila og heimaþjónustu fyrir aldraða. Það eykur álag á Landspítalann og verður til þess að kostnaður Landspítalans verður enn meiri. Ég hygg að stór hluti einmitt af erfiðleikum Landspítalans sé vegna þess að grunnstoðirnar, m.a. heilsugæslan, eru ekki eins og þær ættu að vera.

Í þeirri uppstokkun sem við þurfum að fara í, þ.e. að byggja upp heilsugæsluna að nýju, eigum við auðvitað að nýta okkur þær fyrirmyndir sem við höfum. Þær fyrirmyndir sem við höfum þurfum við ekki að sækja langt. Við þurfum bara að farna upp í Kópavog. Við þurfum að fara í skóla til þess góða manns, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Jóns Kristjánssonar, og læra af því þegar hann tryggði að opnuð var ný heilsugæsla í Salahverfinu í Kópavogi. Niðurstaða þess rekstrar er til mikillar fyrirmyndar þar sem þjónustan er einstök, ánægja íbúanna er langt yfir því sem annars staðar þekkist og kostnaður við heilsugæsluna er mun lægri en á sambærilegum stöðum. Það má í rauninni halda því fram að ef tækist jafn vel til í rekstri og þjónustu á öllum öðrum heilsugæslustöðvum og hefur tekist með heilsugæslunni í Salahverfi þá mundum við hafa efni á því að opna nýja heilsugæslu vegna þess að slík er sóunin í kerfinu.

Áður en ég lýk tölu um heilbrigðiskerfið er vert að menn hugleiði líka eitt stórt verkefni sem er réttlætismál og hv. þingmenn þurfa að fara að einhenda sér í. Það er að innleiða greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu. Það er ekki hægt að horfa upp á að einstaklingar sem glíma við langvinn veikindi þurfi að leggja út í gríðarlegan kostnað eins og þekkt dæmi eru um, svo skiptir hundruðum og jafnvel milljónum kr. Það gengur ekki. Við þurfum að innleiða greiðsluþátttökukerfi með svipuðum hætti og er í lyfjakerfinu og reyna með því að koma í veg fyrir fjárhagslega erfiðleika einstaklinga. Þetta var í huga Péturs heitins Blöndals, fyrrverandi þingmanns, eitt mesta réttlætismál sem þingheimur gæti náð fram. Það væri við hæfi að menn lykju ekki störfum þessa þings án þess að taka að minnsta kosti fyrstu skrefin í þessa átt.

Ég ætla líka aðeins að fara yfir húsnæðismál. Við setjum gríðarlega mikla fjármuni í húsnæðismál. Það er verið að boða umsvifamikil frumvörp þegar kemur að húsnæðismálum. Ég hef að minnsta kosti fyrir fram nokkrar áhyggjur af því. Það á að setja aukna fjármuni í Íbúðalánasjóð á komandi ári. Það á að setja upp undir 7 milljarða í vaxtabætur. Það á að setja töluvert í húsaleigubætur, 1,5 milljarða, ef ég man rétt. Við hljótum að fara að velta þessu fyrir okkur. Frá árinu 2000, frá aldamótum, hefur ríkissjóður sett 242 þús. milljónir í húsnæðismál; 60 milljarðar voru til að koma í veg fyrir gjaldþrot Íbúðalánasjóðs. Þá á eftir að taka inn 80 milljarða sem fóru í skuldaleiðréttinguna sem ekki allir eru ánægðir með. Látum það liggja á milli hluta. Á þessum 15 árum erum við sem sagt búin að setja 242 þús. milljónir í húsnæðismál. Þrátt fyrir það hafa margar fjölskyldur misst heimili sín. Þrátt fyrir það glíma margir við fjárhagslega erfiðleika vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Við hljótum að spyrja okkur: Bíddu, hvernig má það vera með alla þessa fjármuni að staðan skuli vera þannig að menn þurfi að nota 80 þús. milljónir í viðbót til að leiðrétta skuldir heimilanna?

Það er alveg greinilegt að það eru pólitísk átök um það hvort við rekum hér séreignarstefnu eða leigustefnu. Hluti þingheims er greinilega á því að við skulum hverfa með öllu frá séreignarstefnunni og fara í leigustefnu. Þessu er ég ósammála vegna þess að séreignarstefnan er besta leið til að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga, sem hlýtur að vera sérstakt kappsmál stjórnvalda á hverjum tíma að gera. Það hefur sýnt sig að leigustefnan festir fólk og veiðir í fátæktargildru þegar kemur að eftirlaunaárum. Þetta er því stórkostlegt hagsmunamál og verður til þess að ef við tryggjum ekki framgang séreignarstefnunnar þá spái ég því að við sjáum stóraukin útgjöld almannatrygginga hér á komandi árum og áratugum vegna þess að menn tóku ekki til hendinni og tryggðu fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga.

Hvernig hefðum við getað nýtt þessar 242 þús. milljónir með skynsamlegri hætti? Við hefðum getað afhent 40 þús. fjölskyldum 20% eigiðfjárframlag í 30 millj. kr. eign. Með öðrum orðum, ef fjölskylda á um 10%, 3 milljónir, upp í 30 millj. kr. íbúð þá er eigið fé orðið 30% í staðinn fyrir 10%. Það er þá orðið borð fyrir báru. Það skiptir þetta fólk alveg gríðarlega miklu máli vegna þess að það eykur ráðstöfunartekjur þess í náinni framtíð þegar ekki þarf að borga af jafn háum skuldum og annars. Ég held við ættum að ræða um þetta, a.m.k. þegar hv. þingheimur tekur til umræðu fjölmörg lagafrumvörp sem ýmist hafa verið lögð fram eða verða lögð fram eftir áramót, um húsnæðismál, því að þetta er gríðarlegt hagsmunamál. Þetta er það sem ég tel að við eigum að ræða ítarlega í þessum þingsal.

Ég heyrði hluta af ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, í gærkvöldi. Það var eins og við var að búast. Hv. þingmaður er duglegur á uppboðsmarkaði stjórnmálanna. Það er svo sem eðlilegt, ég geri ekki athugasemdir við það. Það hljóta hins vegar margir að staldra við hótanir formanns Samfylkingarinnar um töluvert miklar skattahækkanir hér á komandi árum, hafi Samfylkingin eitthvað um það að segja hvernig samfélagið verður mótað, þar sem á að hækka tekjuskatt einstaklinga hressilega og síðan aðra skatta, ekki síst á fyrirtækin. Hann ætlar að minnsta kosti ekki að líta til reynslu okkar Íslendinga þegar við tókum þá ákvörðun að lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 50% í 18% og skatttekjur ríkisins af tekjuskatti fyrirtækja jukust alveg gríðarlega, úr 0,9% af vergri landsframleiðslu í 1,5%. Lærdómurinn sem ég dró af þessu er að hófsemd í skattheimtu leiðir til aukinna tekna. Lærdóminn sem formaður Samfylkingarinnar dró af þessu skil ég ekki. Sama má segja um allar skattalækkanir sem voru á tíunda áratug. Þegar skattar voru lækkaðir og sumir meira að segja afnumdir jukust heildartekjur ríkisins. Mikið væri nú gaman að takast á á þeim nótum en vera ekki alltaf í útgjaldaumræðunni.

Í útgjöldum setjum við um það bil 13 þús. milljónir á komandi ári í eftirlitsstofnanir. Það er auðvitað kostnaður sem atvinnulífið og einstaklingar bera, en það er ekki eini kostnaðurinn sem hlýst af starfsemi þessara stofnana sem margar hverjar eru auðvitað að vinna mjög þarft og mikilvægt starf. Það má ætla að beinn kostnaður íslenskra fyrirtækja vegna opinbers eftirlits sé ekki undir 20 milljörðum á ári. Þá byggi ég á skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann árið 2004 og hef tekið tillit til breytinga sem orðið hafa. Þetta er líklegast vanmat. Þetta þýðir að við erum með árlegan beinan kostnað af eftirlitsstofnunum sem nemur 240 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Síðan er óbeinn kostnaður, lakari samkeppnisstaða o.s.frv. Við erum að fara úr öskunni í eldinn þegar kemur að þessu.

Ég hef stundum haft gaman af því að taka saman tölur. Þegar ég ber tölur saman endurspegla þær að það árar betur núna. Það er bjartara yfir okkur öllum þó að það mætti halda annað þegar maður hlustar á ræður sumra hv. þingmanna. Samt sem áður er bjartara yfir okkur og það gefur okkur tækifæri til að gera ýmislegt betur. Ég hef verið að brýna menn til að taka á verkefnum sem nauðsynleg eru. Það hlýtur auðvitað að vekja athygli að ef við berum saman árið 2009 og áætlun 2016, miðað við framkomnar breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar, þá sjáum við að skatttekjur ríkisins verða 70% hærri á komandi ári en þær voru árið 2009. Tekjuskattur einstaklinga verður upp undir 60% hærri en það ár og fyrirtæki munu borga yfir 120% meira í tekjuskatt. Tryggingagjöldin verða 87% hærri o.s.frv.

Þegar maður sér svona tölur þá hlýtur maður að staldra við og segja: Bíddu, er virkilega ekki svigrúm til að lækka skatta aðeins? Það hefur auðvitað verið gert að hluta. Ég segi sjálfur að við hefðum átt að ganga töluvert lengra. Ég sé viðhorfið sem er ríkjandi, a.m.k. hjá minni hluta fjárlaganefndar. Þegar talað er um breytingar á tekjuskattskerfinu segir hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir: Ríkissjóður verður af 5,5 milljörðum. Það er líkt og ríkissjóður eigi bara þær atvinnutekjur sem einstaklingar vinna sér inn. Síðan segir í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar að í fjárlögunum fyrir árið 2016 verði töluverður tekjumissir miðað við árið 2015 vegna skattkerfisbreytinga. Ríkið missir sem sagt af þessu. Ég segi: Ríkið leyfir líklegast fólki að halda sjálfsaflafé í auknum mæli og því ber að fagna.

Það er líka alveg ljóst að aukið svigrúm sem auknar tekjur hafa skapað ríkinu hafa verið notaðar til að auka ríkisútgjöld mjög vel. Við sjáum að félagsleg aðstoð er 60% hærri núna í krónutölu en þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson settist í utanríkisráðuneytið og lífeyristryggingar 73% og sjúkrahúsin 49% hærri. (ÖS: Ertu með …?) Það er auðvitað … (ÖS: … í utanríkisráðuneytinu?) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlýtur að lofa mér því að koma í andsvör og þá skulum við ræða saman. En við þurfum auðvitað að bæta í á ýmsum sviðum. Við þurfum að setja aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið. Hvernig má annað vera þegar maður horfir á það að framlag ríkissjóðs til heilbrigðismála lækkaði um 28 milljarða á milli áranna 2009 og 2012 að raunvirði? Auðvitað þarf að vinna upp þann niðurskurð. Menn geta haft skýringar á honum, en það var niðurskurður. Það er búið að bæta það upp og gott betur. Framlag á þessum árum til sjúkrahúsanna lækkaði um 6,9 milljarða að raunvirði, þar af 4,3 til Landspítalans. Í fyrra voru þau þó 1,2 milljörðum hærri en árið 2012 og 5,5 milljörðum hærri að raunvirði en 2010 og enn er aukið á þessu ári og á því næsta. Það er verið að gefa í víða.

Það er rétt að við þurfum að taka ýmislegt til endurskoðunar. Ég vék meðal annars að því hvernig við stöndum að fjármögnun heilbrigðiskerfisins sem fjárveitingavald. Ég held að við séum ekki á réttri leið. Ég er orðinn sannfærður um að það þjóni ekki hagsmunum okkar Íslendinga að fjárveitingavaldið horfi bara til eins árs þegar kemur að heilbrigðismálum og sé með fastar fjárveitingar til heilbrigðismála. Þessu þarf að breyta. Þetta verður flókið verkefni, þetta er ekki einfalt, en það er búið að vinna heimavinnuna á Landspítalanum með því að taka upp og þróa DRG-kerfi sem er grundvöllurinn að því að hægt sé að taka upp ferlifjármögnun, verkefnafjármögnun eða hvað menn vilja kalla það, jafnvel skal ég segja að fé fylgi sjúklingi sem er víst orðin dauðasynd að nefna í þessum þingsal — að fé fylgi sjúklingi þýðir auðvitað ekkert annað en að við séum að tryggja hverjum og einum nauðsynlega þjónustu þegar kemur að heilbrigðismálum. Það er til mikils að vinna í þeim efnum, hæstv. forseti.