145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni gott svar. Við erum sammála. Við erum á réttri leið með að verða í færum til að ná niður skuldum ríkissjóðs og í framhaldinu ganga verulega á þann útgjaldalið sem eru vaxtagjöld.

Það er sameiginlegt verkefni okkar og ég ætla að leyfa mér við þetta tækifæri að hrósa hv. fjárlaganefnd. Það er, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, mikil pressa á fjárlaganefnd. Það þekkir hv. þingmaður af fyrri störfum. Mér finnst öll nefndin, og sérstaklega forustumenn nefndarinnar, hafa staðið sig afar vel við erfiðar aðstæður. Það hafði víða verið mikill og langvarandi niðurskurður sem mikilvægt var að mæta.

Hv. þingmaður kom inn á að kjarasamningarnir spegla stóran hluta útgjalda fjárlaganna. Það er alveg rétt en hér varð að gera átak í því að bæta launakjör í landinu. Það var gert. Það sjáum við í þessum fjárlögum. Að sama skapi var nauðsyn að halda áfram að bæta í grunnþjónustuna. Hv. þm. Karl Garðarsson var í andsvari og fór vel yfir þær tölur til að mynda til heilbrigðismála. Ég vil meina að við séum á réttri leið með fjárlögin og að því leytinu varðandi grunnþjónustuna og það að vera í færum til að greiða niður skuldir.

Ég ætla að vera sammála hv. þingmanni um að við hefðum viljað sjá meiri afgang og við gengum á upphaflega áætlaðan afgang upp á 15 milljarða, sem er kominn niður í 10 milljarða. (Forseti hringir.) En þessi fjárlagagerð hér, með afgangi þriðja árið í röð, gefur tilefni til að gera betur á næstu árum.