146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fjármálastefnu fyrir næstu fimm ár. Það má margt um hana segja, bæði hvað varðar það hvort almenningur í landinu skilur hvað hér er á ferðinni, að við séum í raun og veru að setja okkur ramma til næstu fimm ára sem við getum lítið hreyft okkur innan, og við séum að taka afdrifaríkar ákvarðanir um hvernig samfélagið þróast og vex næstu fimm árin. Það virðist ekki vera að þingmenn stjórnarliða taki það svo alvarlega. Þeir telja að þetta sé eitthvað sem þurfi ekki að sitja yfir eða taka almennt þátt í umræðum um. Þetta plagg er mjög afdrifaríkt varðandi það hvernig uppbygging og ekki-uppbygging verður hér á næstu fimm árum. Það ber þess merki að hér situr við völd hægri stjórn sem lætur kapítalið fyrst og fremst ráða för og hefur ekki samfélagið í öndvegi, hugsar ekki um hvað samfélaginu og almenningi er fyrir bestu en leggur mesta áherslu á að geta sýnt í excel-skjölum að geta greitt hratt niður skuldir á næstu árum, ekki hvernig það kemur út gagnvart þeim almenningi sem við alþingismenn eigum að þjóna og hvernig það bitnar á fólki, hvar sem það er statt í samfélaginu.

Ég get nefnt nokkra lykilþætti sem hafa verið nefndir í þessari umræðu, bara til að velta upp hvort það sé eitthvað sem kveikir í einhverjum sem fylgist með þessum umræðum hér á Alþingi hversu afdrifaríkar ákvarðanir er verið að taka með þessu plaggi. Talað er um að útgjöld megi aðeins aukast um 0,5% af landsframleiðslu. Ætli margir átti sig á hvað liggur þar að baki og hvað það þýðir fyrir fólk persónulega eða ýmsa uppbyggingu í landinu? Svo er það útgjaldareglan. Hallarekstur má ekki vera nema 2,5% af vergri landsframleiðslu. Ætli margir átti sig á því hvað það þýðir nákvæmlega fyrir landsmenn næstu fimm árin? Það er talað um að útgjaldaþakið sé 41,5% af vergri landsframleiðslu. Kveikir það á einhverjum sem er að fylgjast með þessari umræðu eða lesa um fjármálastefnuna á netinu eða í fjölmiðlum? Ég efast um að heilt yfir séu margir sem skilja hvað liggur að baki og hvaða reglur er verið að setja til að múra samfélagið inn í mjög þröngan ramma sem erfitt er að brjótast út úr.

Þá er spurt: Samræmist stefnan sveiflujöfnunarhlutverki ríkisins? Ég tel að hún geri það ekki. Ríkið á auðvitað að vera í forsvari og jafna sveiflur ef þær verða. Ef hagvöxtur minnkar á ríkið að beita sér til að örva hagvöxt og ýta undir hann með hagstjórnartækjum sínum og fara út í framkvæmdir. En mér sýnist að það hlutverk ríkisins gangi ekki upp innan þess þrönga ramma sem hér er lagður til. Það er ofuráhersla lögð á að lækka skuldir ríkisins. Gott og vel. Enginn vill skuldugan ríkissjóð sem þarf að greiða háa vexti á hverju ári. 70 milljarðar hafa verið nefndir. En hversu hratt eigum við að greiða niður þessar skuldir? Hvernig bitnar það á almenningi í landinu? Eigum við ekki fyrst að horfa á jöfnuna og hafa almenning í landinu með í henni áður en við tökum þetta eins og fyrirtæki þar sem ekkert annað er á ferðinni með en sala á varningi og framleiðslu?

Þetta er heilt samfélag sem ber þungann af þessum ákvörðunum um að lækka skuldir svona hratt og hafa rammann svona þröngan. Það kemur hart niður á því samfélagi. Það á eftir að koma í ljós þegar fram líða stundir að ekki er svigrúm til að mæta óskum almennings. Loforð stjórnmálamanna virðast ansi létt í hendi þegar á reynir um að koma myndarlega að uppbyggingu innviða í landinu, í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, samgöngum, og að bæta hag þeirra sem verst eru settir. Manni finnst ekki mikill áhugi á því hér í sölum Alþingis, eða allt of lítill áhugi skal ég kannski frekar segja.

Hvar er gert ráð fyrir þeim markmiðum sem lögð voru upp varðandi loftslagsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inni í þessari formúlu sem hér er lögð upp í þessum þrönga ramma? Ef við ætlum að mæta þeim markmiðum kostar það líka fjármuni, t.d. varðandi orkuskipti og áætlanir í þeim efnum. Allt kostar þetta peninga, þessar metnaðarfullu áætlanir. Þarna er verið að loka þetta inni. Löggjafinn á mjög erfitt með að greina hvað er þarna á bak við. Þetta er því miður að færast meira og meira í hendur embættismanna, með fullri virðingu fyrir öllum embættismönnum landsins. Þeir eru ekki lýðræðislega kosnir á fjögurra ára fresti út á pólitíska stefnu sem þeir eiga að fylgja eftir. Embættismenn vinna fyrst og fremst eftir því sem þeim er lagt fyrir, þeir eiga ekki að hafa ákvörðunarvald um það hvernig fjármagninu er ráðstafað og hve miklu og hvernig það deilist niður á hina ýmsu málaflokka. En það verður raunin þegar þessi fjármálastefna og í framhaldinu fjármálaáætlun sem verður borin upp á hverju ári verður afgreidd. Fjárlögin sem slík, sem hafa verið það sem allt hefur snúist um, hvernig ríkið hagar sínum útgjöldum og tekjuöflun, verða að mér sýnist að mestu til málamynda. Þetta verður allt afgreitt fyrir löngu og í raun afgreitt með þeim ramma sem fjármálastefnan kveður á um.

Ég held að almenningur í landinu hafi ekki verið að kjósa um þetta í kosningunum sem fóru fram í haust og að ekki hafi verið upplýst hver þessi áform yrðu, að það yrði í hendi mjög fárra hvernig farið yrði með almannafé, skatta okkar allra.

Þá kem ég að því að í stefnunni virðist ekki vera gert ráð fyrir að auka megi tekjur að neinu marki með aukinni skattlagningu. Ef við föllum ekki undir fjármálamarkmið og hagsveifluna eins og hún lítur út hverju sinni þá á að skera niður, selja eignir, en það má alls ekki leggja á skatta eða afla tekna. Það er stórhættulegt ef menn eru fyrir fram búnir að múra þetta þannig inn að ekki megi afla tekna. Það lýsir stefnu þessara stjórnvalda, þessarar hreinu hægri stjórnar sem hér situr við völd, að undir niðri er markmiðið að losa sig við samfélagslegar eignir ríkisins og okkar allra og ýta undir einkarekstur, sem er fínna orð yfir einkavæðingu. Það er gert með þeim hætti að þrengja svo að öllu sem fellur undir velferðarþjónustu og samfélagsþjónustu, svo sem samgöngubætur og uppbyggingu heilbrigðis- og menntakerfis, og reyna að draga það svo langt niður að alltaf verði meiri og meiri óánægja hjá almenningi með þessa málaflokka þannig að hægt sé að réttlæta einkarekstur, sölu eigna ríkisins o.s.frv.

Það vita allir sem vilja vita að þetta stefnir allt í þá átt, að draga sem mest úr umsvifum ríkisins, láta almenning borga sem mest beint úr eigin vasa, að það sé ekki jöfnuður í skatttekjum og þeim deilt þannig niður að það sé jafnt aðgengi allra að menntastofnunum, jafnt aðgengi að heilbrigðiskerfinu með sem lægstum gjöldum og að það séu einhverjir innviðir í þessu samfélagi sem taki á móti 2 milljónum ferðamanna sem blasir við að koma til landsins á næstunni. Fyrir utan almenning í landinu sem býr við moldarvegi og óásættanlega innviði, hvort sem við nefnum sjálfsagða hluti eins og ljósleiðara eða annað því um líkt.

Þetta eigum við að kokgleypa með fjármálastefnunni. Enginn veit hvað er þarna að baki, hvað þetta þýðir nákvæmlega. Það er eins og það sé verið að halaklippa löggjafann sem á að hafa fjárveitingavaldið og vita nákvæmlega og ákveða með lýðræðislegri atkvæðagreiðslu hvernig fjármunum er varið til uppbyggingar samfélagsins. Nú á þessum miklu þenslutímum, sem menn gorta af að sé síðustu ríkisstjórn að þakka og þessi ríkisstjórn gengur borubrött fram og veifar þeim fánum að hér sé allt á réttri leið, þá stöndum við frammi fyrir ýmsum hættumerkjum sem við þurfum að taka alvarlega. Það verður kannski ekki sambærilegt hrun og var 2008 en það gæti orðið niðursveifla og ríkið þarf að vera tilbúið til að beita sveiflujöfnunartækjum.

Það hafa verið miklar fjárfestingar í samfélaginu. Atvinnuvegirnir hafa aukið sínar fjárfestingar mikið, um 25%. Íbúðafjárfesting hefur aukist um 33%. En fjárfesting hins opinbera var 2,5% á síðasta ári. Hvað segir þetta manni? Það segir manni að ríkissjóður er kominn í mikla skuld við samfélagið. Ríkissjóður skuldar samfélaginu mikið í heilbrigðismálum, menntamálum og samgöngum og þannig mætti endalaust telja. Það verður alltaf dýrara og dýrara að fara í þessa innviðauppbyggingu eftir því sem hlutirnir eru látnir drabbast lengur niður. Þetta finnst mér gleymast í þessari umræðu. Það verður miklu dýrara að fara í þessa uppbyggingu þegar og ef af henni verður, vonandi einhvern tíma. Ég bind ekki miklar vonir við að af því verði undir þessari hægri stjórn. Hún sýnir þess ekki merki að hún sé að fara í neina alvöruuppbyggingu sem uppsöfnuð þörf er á til fjölda ára.

Þá er ekki alltaf hægt að tala um að við þurfum að lækka innlendar og erlendar skuldir en safna á sama tíma upp skuldum gagnvart innviðum íslensks samfélags og almenningi í landinu, gagnvart öldruðum og öryrkjum, unga fólkinu, að það sé húsnæði í boði á eðlilegu verði, og gagnvart fjölskyldum landsins. En það truflar ekki neinn því það á fyrst og fremst að horfa á að lækka skuldir sama hvað það kostar.

Það er einkennilegt með fjármálaráðið sem var sett á laggirnar til þess að fara yfir þessa tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu að ekkert var gert með aðvaranir þess. Til hvers í ósköpunum var verið að setja á þetta fjármálaráð ef ekki átti að taka neitt mark á því? Byrjar ríkisstjórnin á að hunsa allar ráðleggingar? Hver er nú fagmennskan og gagnsæið og að byggja á því að hlusta á fagaðila sem koma með góðar ábendingar í þessum efnum? Það er ekkert gert með það. Hér hefur verið nefnt að fjármálaráð telji að verið sé að setja ríkissjóð í spennitreyju ef þetta verður samþykkt, þetta sé allt of mikið niðurnjörvað og enginn möguleiki fyrir ríkissjóð að hreyfa sig ef fara á eftir þessu eins og einhverri helgri bók hér á hv. Alþingi.

Margt má segja um þessa hluti og ég hef miklar áhyggjur. Mér finnst þetta líka vera svo landsbyggðarfjandsamleg þingsályktunartillaga. Ég er kannski ekki að segja að það sé í fyrsta skipti vegna þess að hingað inn koma svo oft mál þar sem er enginn skilningur á stöðu landsbyggðarinnar. Hér á höfuðborgarsvæðinu er gífurleg þensla. Í augnablikinu drýpur kannski smjör af hverju strái hjá mörgum en alls ekki öllum. Hér er líka gífurleg fátækt sem menn vilja loka augunum fyrir. En á landsbyggðinni hefur ekki komið uppsveifla með sambærilegum hætti og á höfuðborgarsvæðinu. Ef ekki er tekið til hendinni núna við þessar aðstæður þegar á síðasta ári var rúmlega 7% hagvöxtur og hefur farið vaxandi sem betur fer frá árinu 2010, þegar vinstri stjórnin sat við völd og byggði undir þann efnahagsbata sem við búum við í dag, hvenær í ósköpunum er þá hægt að taka til hendinni og gera eitthvað? Ég bara spyr. Og ég spyr ekki sem fávís kona. Ég spyr bara sem ágætlega greind kona. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvenær í ósköpunum ætlar ríkisvaldið að sýna landsmönnum þá virðingu, þeim sem borga sína skatta af tekjum allt niður í 200 þús. kr. eða rúmlega það, að þeir fái eitthvað fyrir sína skatta? Sama hvar þeir búa, hvort sem er í Árneshreppi eða á Flateyri, Djúpavogi, hvar sem er. Hvenær fær þetta fólk t.d. almennilegar samgöngur? Það sést ekki í þessari fjármálastefnu að það eigi að bæta í samgöngur að neinu gagni. Það er verið að hökta þetta áfram kílómetra eftir kílómetra og gera allar framkvæmdir miklu dýrari en annars yrði.

Það er ekki boðlegt árið 2017 að við séum enn þá eins og samfélag í Austur-Evrópu í stórum landshlutum þar sem ýmislegt er svo aftarlega á merinni að það er okkur til skammar, þessari ríku þjóð.

Þess vegna gef ég lítið fyrir þetta plagg sem ætlar að múra þá fátæku lengur inni í fátækt, múra inn ójöfnuð í landinu og halda landsbyggðinni niðri og allri innviðauppbyggingu (Forseti hringir.) og gera ekkert með að það er kominn tími til að spýta í lófana og byggja upp þetta samfélag eins og það á skilið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)