148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

vísbendingar um kólnun í ferðaþjónustu.

[16:02]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Vöxturinn sem við höfum horft upp á undanfarin ár hefur verið alveg gífurlega mikill. Í raun held ég að allir séu alveg sammála um að hann hafi verið ósjálfbær, að minnsta kosti ef við horfum á hve mikill hann hefur verið í langan tíma.

Greinin sjálf, ég get tekið undir að það sé ekki hausatalningin sem skiptir máli í þessu heldur hverju við náum út úr greininni almennt og annað slíkt.

Að horfa upp á að vöxturinn sé að minnka. Það hafa auðvitað verið ýmis teikn á lofti sem hafa sagt okkur að það væri líklegt. Þrátt fyrir að þetta sé minni vöxtur en ýmsar spár gerðu ráð fyrir, eins og hv. þingmaður kom inn á varðandi Isavia, hef ég á þessu stigi ekki áhyggjur af því að vöxturinn sé minni. Það er algjört lykilatriði að reyna að horfa til þess hvers vegna það er. Líkt og hv. þingmaður kom inn á varðandi það að greinin væri mögulega fórnarlamb eigin velgengni þá hefur krónan styrkst. Það sem skiptir öllu máli er að verð og gæði haldist í hendur.

Hvað varðar veltu kreditkorta þarf það svo sem ekkert að koma á óvart að ferðamenn eyði minna í íslenskum krónum, en við sjáum líka að þeir eyða í rauninni svipuðum upphæðum í sínum gjaldmiðli. Maður getur nú alveg tengt við það sjálfur hvernig það er, eftir því til hvaða landa maður fer og hvernig gjaldmiðillinn er þar. Hvað varðar leitarvélafréttina þá voru þeir sjálfir með ýmsa fyrirvara á því hversu mikið væri að marka það. Það var mjög áhugaverð framsetning.

Við sjáum auðvitað ýmsar vísbendingar. Bankar hafa verið að gefa út skýrslur. Og í Eflu-verkefninu, sem ég hef áður komið inn á, erum við meðal annars að reyna að horfa til þess hvaða áhrif ferðaþjónustan hefur í dag á efnahagslega þáttinn og hvaða áhrif miklar breytingar á þeim þætti geta haft. Stórar og miklar breytingar í ferðaþjónustunni hafa auðvitað veruleg áhrif á efnahagslega þáttinn af því að ferðaþjónustan er orðin svo stór partur af henni.