150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[14:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Af því að við erum að tala hér um tölur og að við lifum ekki á stefnunni einni saman, sem er rétt, þá endurspeglar aukning á fjármunum stefnuna líka. Á mínum tíma í heilbrigðisráðuneytinu hefur aukningin í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu verið 24% á föstu verðlagi. Það er til þess að styrkja og efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og þar erum við auðvitað að leggja líka okkar af mörkum að því er varðar umhverfi Landspítala.

Hv. þingmaður hvatti mig til dáða í því að grípa til aðgerða varðandi stöðu á bráðamóttöku Landspítalans.Það var settur af stað átakshópur á föstudaginn var og hann hóf störf í morgun. Hann er settur saman úr sérfræðingum, bæði úr ráðuneytinu og af Landspítala, og er ætlað að leysa það vandamál sem hefur verið viðvarandi og komið sífellt upp aftur og aftur á bráðamóttöku Landspítala.