150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég biðst forláts á því að hafa látið bíða eftir mér, ég bjóst við að menn yrðu langorðari í þessari umræðu en reyndist. Mig langar að fagna þessu máli ákaflega. Þetta er mikilvægt og gott mál og ánægjulegt að sjá það verða að veruleika. Það er ágætt að halda því til haga að það var þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttir, sem einmitt hleypti þessu máli af stað 2016 í aðgerðaáætlun og ég fékk svo að fylgja því aðeins eftir í ráðherratíð minni með skipan þess starfshóps sem kveðið var á um í þeirri aðgerðaáætlun að skipa um samræmingu réttinda kvótaflóttamanna og annarra sem hljóta hér alþjóðlega vernd. Þetta er mjög mikilvægt því að það veldur ákveðnum urg hjá þeim flóttamönnum sem hér hljóta alþjóðlega vernd þegar þeir átta sig á þeim mikla mun sem hefur verið hjá okkur í móttöku hjá kvótaflóttamanna annars vegar og þeirra flóttamanna sem við tökum á móti með öðrum leiðum.

Aðalatriðið er auðvitað að við tryggjum árangursríka og góða aðlögun þessa fólks að íslensku samfélagi, kynnum fyrir því möguleika, hjálpum því að koma sér fyrir, finna húsnæði, finna atvinnu og o.s.frv. Það skiptir sköpum þegar fram í sækir þegar við sem samfélag erum að breytast jafn mikið og raun ber vitni, og þetta á ekki bara við um flóttamenn heldur þá einföldu staðreynd að Ísland er að breytast í innflytjendasamfélag. Meira en 15% þjóðarinnar sem hér búa eru af erlendu bergi brotin í dag og fer hlutfallið ört vaxandi. Án þessa hóps hefðum við ekki getað ráðið við þann mikla vöxt sem orðið hefur í hagkerfinu okkar og mikla fjölgun starfa. Þrátt fyrir að það sé tímabundinn afturkippur núna höfum við reist velgengni okkar á undanförnum áratug hið minnsta að stórum hluta á innflytjendum. Það er jákvætt. Við sjáum að samfélagið er að verða fjölbreyttara og skemmtilegra fyrir vikið en um leið verðum við líka að sinna skyldum okkar sem samfélag þannig að þessum vaxandi hópi fólks finnist hér gott að búa, að það njóti jafnra tækifæra á við aðra landsmenn, að sú ákvörðun að setja hér að reynist þeim farsæl og góð. Ég tel þetta mál vera mjög gott og jákvætt skref í þá átt og fagna því að hæstv. félagsmálaráðherra sé að mæla fyrir því í dag og vona að það fái góðan framgang í þinginu.