150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fjöleignarhús.

468. mál
[15:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús þar sem lagt er til að auðvelda eigendum að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla við eða á bílastæði í fjöleignarhúsum. Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið auk fulltrúa Húseigendafélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Frumvarpið er liður í stefnu stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum en þriðjungur þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda kemur frá vegasamgöngum. Stærsta einstaka aðgerðin sem mögulegt er að ráðast í til að mæta skuldbindingum Íslands er að draga úr slíkri losun með breyttum ferðavenjum og orkuskiptum í vegasamgöngum. Rafbílum hefur fjölgað hratt hér á landi og er Ísland í 2. sæti í heiminum á eftir Noregi hvað varðar hlutfall rafbíla af fjölda nýskráðra bifreiða. Meðal þess sem getur þó tafið fyrir orkuskiptum eru hleðslumöguleikar í fjöleignarhúsum.

Núgildandi ákvæði laga um fjöleignarhús fela í sér ákveðna hindrun að þessu leyti þar sem í þeim er m.a. áskilið að samþykki allra eigenda liggi fyrir til að unnt sé að skipta sameiginlegum og óskiptum bílastæðum í slíkum húsum. Þá verður samþykki einfalds meiri hluta eigenda að liggja fyrir til uppsetningar á hleðslustöð fyrir rafbíla á sameiginlegri lóð þótt bílastæði sé eftir sem áður notað sem almennt bílastæði. Eigi aftur á móti að einskorða notkun tiltekins bílastæðis við hleðslu rafbíla þarf samþykki allra eigenda til, enda sé með því verið að skipta sameiginlegum bílastæðum eða heimila eigendum slíkra bifreiða sérstakan og aukinn rétt til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur.

Tilefni frumvarpsins er því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um fjöleignarhús með það að leiðarljósi að liðka fyrir rafbílavæðingu, í samræmi við stefnu stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum, með því að gera almenningi kleift að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla heima fyrir í fjöleignarhúsum.

Með frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir er lagt til að fjórar nýjar greinar verði lögfestar um hleðslubúnað í fjöleignarhúsum fyrir rafbíla. Lagt er til að kveðið sé á um hvernig eigandi sem óskar eftir því að hleðslubúnaði verði komið upp fyrir rafbíla við bílastæði á lóð fjöleignarhúss skuli bera sig að. Þannig er gert ráð fyrir að viðkomandi tilkynni slíka beiðni til húsfélags fjöleignarhússins sem geri í framhaldinu úttekt á áætlaðri framtíðarþörf á slíkum búnaði og hvaða búnaði, svo sem álagsstýringarbúnaði, og framkvæmdum gera megi ráð fyrir að nauðsynlegar verði til að mæta þeirri þörf.

Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um að almennt þurfi ekki samþykki annarra eigenda til þess að hleðslubúnaði verði komið upp fyrir rafbíla við eða á bílastæði á lóð fjöleignarhúss nema það leiði til þess að meira en helmingur sameiginlegra og óskiptra bílastæða verði eingöngu til notkunar til hleðslu rafbíla. Þá er lagt til grundvallar að hleðslubúnaður fyrir rafbíla og annar tengdur búnaður skuli uppfylla þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt löggjöf um rafmagnsöryggi, brunavarnir og mannvirki og að löggiltur rafverktaki skuli annast framkvæmdir vegna slíks búnaðar að því marki sem þær varða rafmagn.

Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um hvernig kostnaður vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla skiptist á eigendur fjöleignarhúss. Þannig er gert ráð fyrir að kostnaður sé sérkostnaður eiganda að því marki sem um séreign viðkomandi er að ræða. Að því marki sem um sameign er að ræða er aftur á móti gert ráð fyrir að um sé að ræða sameiginlegan kostnað allra þeirra eigenda sem hafa heimild til afnota af viðkomandi bílastæði, hvort sem bílastæðið er áfram nýtt sem almennt bílastæði eða eingöngu til hleðslu rafbíla og óháð því hvort viðkomandi eigendur hafa sérstæði. Þannig þykir sanngjarnt og eðlilegt að allir þeir sem hafa afnotamöguleika af viðkomandi bílastæðum taki þátt í umræddum kostnaði, enda verður þeim og fólki á þeirra vegum heimilt að nýta sér umrædda aðstöðu til framtíðar. Þá er enn fremur lagt til grundvallar að um sameiginlegan kostnað eigenda, allra eða sumra, geti verið að ræða þótt hann sé vegna hleðslubúnaðar við eða á sérstæði, til að mynda þegar um er að ræða sameiginlegar lagnir.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að minni hluti eigenda geti í undantekningartilfellum krafist þess að framkvæmdum verði frestað í allt að tvö ár á meðan safnað verði fyrir þeim í sérstakan framkvæmdasjóð. Er þá átt við tilfelli þegar hleðslubúnaður fyrir rafbíla hefur í för með sér sameiginlegan kostnað sem er óvenjuhár í samanburði við það sem almennt tíðkast í sambærilegum húsum vegna sérstakra aðstæðna. Einnig er gert ráð fyrir að húsfélögum verði fengin heimild til að krefjast hóflegrar mánaðarlegrar þóknunar frá þeim eigendum sem nýta hleðslubúnað fyrir rafbíla.

Líkt og áður sagði var við samningu frumvarpsins haft samráð við fulltrúa Húseigendafélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Auk þess var frumvarpið unnið í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Meðal þessara aðila var einhugur um þá leið sem farin er í frumvarpinu varðandi hleðslubúnað fyrir rafbíla í fjöleignarhúsum. Hvorki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á stjórnsýslu ríkisins né að það leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð.

Verði þetta frumvarp að lögum verða þær reglur sem gilda um hleðslubúnað fyrir rafbíla í fjöleignarhúsum skýrari en nú er. Þannig verður dregið úr réttaróvissu varðandi þær reglur sem gilda um slíkan búnað, auk þess sem liðkað verður fyrir rafbílavæðingu hér á landi í samræmi við stefnu stjórnvalda um orkuskipti.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.