150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala.

459. mál
[16:35]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður á því frumvarpi sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson mælti fyrir áðan og ætla ekki að tefja þessa umræðu mikið heldur leggja til örlitlar viðbætur, helst um kjarna þessa frumvarps, hvað það þýðir í raun. Fyrst vil ég segja að svipað frumvarp hefur verið lagt fram oft áður, a.m.k. sex sinnum, eins og kemur fram í greinargerðinni. Áður en fjármálahrunið varð 2008 var þetta þekkt í Bandaríkjunum en síðan hefur það verið tekið upp víða í Evrópulöndum. Við höfum ekki tekið upp þessa aðferð við skuldaskil fasteignalána til neytenda á Íslandi. Ég tel að þetta myndi bæta stöðu heimilanna verulega þar sem 9.200 fasteignir í eigu einstaklinga hafa verið seldar nauðungarsölu hér á landi á síðustu tíu árum, eins og kom fram í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni til dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra.

Er þetta þarft mál? Já, þetta er þarft mál ef bara þessar tölur eru skoðaðar. Hvernig hefur framkvæmdin verið? Þar tala ég af nokkurri reynslu þar sem ég vann við þetta. Framkvæmdin hefur verið sú eftir nauðungarsölur að ófullnægðir kröfuhafar, þ.e. þeir sem ekki fá kröfu sína greidda að fullu eftir nauðungarsöluna, hafa margir hverjir haldið áfram að innheimta eftirstöðvar kröfunnar eftir nauðungarsöluna. Þannig hafa lánastofnanir oft og tíðum hundelt þetta fólk eftir að heimili þess hafa verið seld á nauðungarsölu. Þannig hefur fólk verið krafið um eftirstöðvar lánsins, jafnvel þótt veðandlagið, fasteignin, heimilið, hafi verið selt. Í raun og sanni erum við hér að tala um ábyrgð. Ábyrgðin hingað til hefur eingöngu lagst á lántakandann, þ.e. ef hann greiðir ekki hefur lánveitandinn ýmis úrræði eins og þetta, að fara nauðungarsöluleiðina, taka sinn hlut eða andvirðið fyrir kröfunni og halda síðan áfram ef eitthvað stendur eftir sem oft er sökum verðtryggingar, vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar sem oft er, halda svo áfram að hundelta viðkomandi eftir nauðungarsöluna, kannski árum saman, hirða bæði laust og bundið í eigu skuldarans og setja hann á vanskilaskrá með tilheyrandi óþægindum í áraraðir fyrir viðkomandi.

Þá kem ég aftur að því hver sé ábyrgð lánveitandans, bankastofnunarinnar. Lánveitandinn lánar kannski 50% eða 70% af andvirði fasteignar. Hann tekur með því litla áhættu vegna þess að lánið má hækka töluvert og fasteignin má lækka töluvert áður en hann fer að sjá fram á raunverulegt tap á hluta af sinni kröfu nema hann samþykki að fara ofar á andlaginu og aftar og taka þá áhættu. Hann tekur ekki slíka áhættu. Hann er ekki látinn sæta neinni ábyrgð þegar hann ákveður að lána viðkomandi. Þetta er spurning um ábyrgð að mínu mati. Það er tími til kominn að lánastofnanir taki einhvern hluta ábyrgðarinnar á sínar herðar, ekki eins og þetta hefur verið.

Þetta er einfalt. Lánastofnun lánar með veði í fasteign. Ef hún dugir ekki til, sem lánveitandinn getur séð að mestu fyrir hvort dugi eða ekki — það þurfa að gerast einhverjir stórir atburðir eins og gífurleg lækkun fasteignamats sem verður til þess að lánveitandi lendi í einhverju tapi og yfirleitt er það tap bundið í innheimtuþóknuninni, dráttarvöxtunum sem gerast yfirleitt á síðari stigum. Á seinustu stigum innheimtuferilsins gerist það að krafan hækkar mjög hratt, sjálf krafan er kannski enn þá frekar hófleg, kannski ári eftir að hún lendir í vanskilum en allt það sem við bætist vex með miklum ólíkindum. Það er sú krafa sem við erum að tala um. Er réttlætanlegt að hún standi úti ef lánveitandinn hefur tekið þá áhættu að lána mjög hátt upp í veðandlag fasteignar eða ekki? Ég segi: Já, við verðum að fella ábyrgð á lánveitandann líka. Það er ekki til of mikils mælst. Við verðum að fara að taka ábyrgð í þessu samfélagi.