150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi.

203. mál
[19:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera upp þessa tillögu til þingsályktunar. Það hefur lengi verið vandamál í sveitum landsins, eins og flutningsmanni er kunnugt um og kemur fram í greinargerð, að sérstaklega álftir og auðvitað gæsir líka eru viðvarandi vandamál á túnum bænda og hafa verið lengi. Þetta vandamál hefur vaxið, eins og kemur fram í greinargerðinni, sérstaklega með álftastofninn og einnig heiðagæsastofninn, að það fjölgar mjög í stofni þessara tegunda, a.m.k. heiðagæsa. Árið 1960 voru álftir á landinu 3.000–5.000. Fyrir fimm árum voru þær orðnar samkvæmt nýjustu tölum sem ég sé í þessari greinargerð 31.000 og örugglega fleiri í dag en var fyrir fimm árum vegna þess að álftir má finna mjög víða nú orðið. Þær hópast saman. Það er varla til sá pollur í sveitum landsins sem er svo ómerkilegur að álftapar setji sig ekki í stellingar til að koma af stað varpi í honum.

Með tilliti til þessa er spurning mín til hv. þingmanns sú hvort ekki hafi komið til greina að koma með frumvarp eða tillögu um að aflétta friðun einfaldlega á álft og leyfa takmarkaðar veiðar á álft eftir ráðgjöf sérfræðinga eða þá með einhvers konar kvóta eins og hreindýraveiðunum er stjórnað.