150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi.

203. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni er komið inn á hvað gert var árið 2012 með Svalbarðastofninn í heiðagæsum í Danmörku og Noregi. Þar fólst verndaráætlunin í því að fækka fuglunum um helming, úr 120.000 í 60.000 fugla.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki komi til greina að gera eitthvað varðandi álftina. Ég lít svo á að í þessari þingsályktunartillögu sé verið að fjalla um álftir og þá gæsastofna sem hér eru. Álftinni hefur fjölgað óhóflega og það á einnig við um heiðagæs og ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að þá verði að grípa til einhverra ráðstafana.

Þetta er tignarlegur og fallegur fugl og hefur verið friðaður lengi en er þyrnir í augum margra sem eru að verja land sitt. Þetta er feikilegt vandamál mjög víða þannig að ég tel að ef menn fara í góða gagnasöfnun og velta fyrir sér hvað hægt sé að gera sé ein leiðin sú að reyna að fækka álftinni með einhverjum ráðum.