152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

varnarsamningurinn við Bandaríkin.

[10:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisvert. Forsætisráðherra, sem situr í ríkisstjórn sem m.a. Sjálfstæðisflokkurinn er aðili að, getur ekki sagt skýrt og klárt að það eigi að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin, sem er frá árinu 1951, í ljósi þjóðarhagsmuna, þjóðaröryggis. Það segir ekki skýrt í samningnum hversu langan tíma Bandaríkjamenn hafa til að bregðast við ef við köllum eftir aðstoð. Það segir ekki skýrt þar. Svo á að skýla sér á bak við eitthvert áhættumat sem gert var hér fyrir ári síðan þegar aðstæður hafa gjörbreyst í heiminum. Það er eitthvað mjög erfitt og viðkvæmt hér í gangi og ég vona að það sé ekki stefna Vinstri grænna sem leiðir til þess að við sýnum ekki festu og ákveðni strax í okkar viðbrögðum í því hvernig við eigum að verja okkar öryggi, treysta okkar öryggi.

Spurningin er einföld: Mun ráðherra beita sér fyrir því að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin í ljósi þess að hann geymi skýrari ákvæði til að verja okkur Íslendinga, ekki bara varðandi netöryggi (Forseti hringir.) heldur líka til þess að vita hversu langan tíma Bandaríkjamenn ætla sér (Forseti hringir.) til að bregðast við ef við óskum eftir aðstoð þeirra í óöruggum aðstæðum?

Ég sé greinilega að það er allt í pati hér á ríkisstjórnarbekknum. Ég skil vel að það sé svo.

(Gripið fram í: Verst að hún kann þetta ekki alveg nógu vel.)