152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

mótvægisaðgerðir gegn verðhækkunum.

[11:07]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir yfirferð á efnahagsmálum en það fór ekki mikið fyrir svörum um hvað eigi að gera nú. Mig langar til að ítreka að vanskilatölur eru margra mánaða gamlar tölur. Við erum að tala um hvað er að fara að gerast núna og næstu mánuði. Það liggur fyrir að þessar verðlagshækkanir munu mögulega rata í kjarasamningaviðræður í haust og það er einfaldlega ábyrg efnahagsstjórn að reyna að komast á undan þessum vanda. Þrátt fyrir að ég fagni því að verið sé að boða mögulegar breytingar á húsnæðismarkaðnum þá vitum við öll hér inni að það er langtímaverkefni. Það mun taka mörg ár að vinda ofan af aðstæðum á húsnæðismarkaði. Í millitíðinni stendur fólk, viðkvæmir hópar sem hæstv. forsætisráðherra segist vissulega standa með, höllum fæti. Við munum sjá þetta birtast í haust í kjarasamningum. Þá fáum við aftur af stað víxlverkun launa og verðlags sem er þekkt fyrirbrigði hér. Ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir því að fara í sértækar aðgerðir til að koma í veg fyrir að við lendum aftur í verðbólguhækkun strax í haust? Ég ítreka spurninguna: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera á næstu vikum, ekki á þessu kjörtímabili?