152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

húsnæðisliður í vísitölunni.

[11:09]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Verðbólgan mælist í dag 6,2%. Þriðjung þeirrar verðbólgu má rekja til hækkandi húsnæðisverðs. Húsnæðisverð hefur undanfarið hækkað í veldisvexti og fjölmörg dæmi eru um spákaupmennsku á íbúðamarkaði. Íbúðir eru auglýstar aðeins nokkrum mánuðum eftir sölu á langtum hærra verði og helstu greiningaraðilar spá áframhaldandi framboðsskorti á íbúðum. Húsnæðisliðurinn hefur í gegnum vísitöluna keðjuverkandi hækkunaráhrif á húsnæðisverð og hefur þar með skelfileg áhrif á heimilin. Þær fjölskyldur sem sitja fastar í viðjum verðtryggðra lána mega horfa upp á eignarhlut sinn minnka um hver mánaðamót. Að auki bætast hækkandi fasteignagjöld við útgjöld heimilanna. Leigusamningar eru að jafnaði vísitölutengdir þannig að leiga hækkar einnig gríðarlega hjá þeim sem ekki hafa komist inn á húsnæðismarkað. Kjarabætur lífskjarasamninganna eru að þurrkast út. Ljóst er að grípa þarf til aðgerða strax til að vernda heimilin frá hörðustu áhrifum verðbólgunnar. Flokkur fólksins vill húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Við höfum lagt fram frumvarp þess efnis sem nú er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Hæstv. innviðaráðherra hefur einnig lýst þeirri skoðun sinni að tilefni sé til að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er hún sammála Flokki fólksins og hæstv. innviðaráðherra um að nú þurfi að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni og mun hún styðja frumvarp Flokks fólksins þess efnis?