152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

húsnæðisliður í vísitölunni.

[11:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem tengist þeirri sem hér var á undan. Ég vil vísa til þess hóps sem settur hefur verið af stað til að leggja til frekari tillögur. Ég vil minna á það að sá árangur sem náðst hefur, í því að tryggja aukið framboð á húsnæði, kemur til vegna tillagna þessa hóps þegar hann var síðast settur á laggirnar, 2019. Í gegnum þær tillögur var ráðist í aukningu á stofnframlögum, í breytingar á fyrirkomulagi húsnæðismála hjá hinu opinbera, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur fest sig í sessi sem lykilstefnumótandi aðili þegar kemur að húsnæðismarkaðnum og við réðumst síðan í hlutdeildarlánin. Þannig að þessi hópur er aftur farinn af stað. Viðfangsefnin eru önnur núna en þau voru þá, það tengist ekki síst verðlagsþróun en ekki síður skorti á framboði.

Og af því að hv. þingmaður gerir hér sérstaklega að umræðuefni húsnæðislið vísitölunnar þá held ég að rót vandans sé miklu frekar skortur á framboði því að við erum að horfa hér á mannfjöldaspá Hagstofunnar og við erum að horfa á spár um íbúðir á markaði og við sjáum að þetta fer ekki saman. Það er ekki verið að byggja nægjanlega mikið húsnæði þrátt fyrir að stuðningur stjórnvalda hafi í raun verið þáttur í þriðjungi allra nýrra íbúða á síðustu tveimur árum. Það er mikið umhugsunarefni. Við þurfum að huga að því hvernig við getum komið inn með enn sterkari hætti til að tryggja þetta framboð. Þegar kemur að húsnæðislið vísitölunnar þá var það tekið til ítarlegrar umræðu á síðasta kjörtímabili. Í samráði við aðila vinnumarkaðarins var fenginn sérstakur sérfræðingur í málefnum vísitölunnar til að leggja á þetta mat. Niðurstaðan varð, og við það voru allir aðilar sáttir, líka aðilar vinnumarkaðarins, að fara ekki í það að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni, það væri ekki lausn á vandanum. Við þurfum að horfa á rót vandans, herra forseti, og þar þurfum við að horfa á framboð á húsnæði.