152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

húsnæðisliður í vísitölunni.

[11:13]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Þannig að svarið er sem sagt að ekki eigi að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni af því að rót vandans sé skortur á framboði á húsnæði sem aftur veldur hækkunum á vísitölunni? Hvernig er sú hækkun fólkinu í landinu að kenna? Hvernig er hægt að réttlæta að velta þeim vanda sem skortur á framboði á húsnæði er, sem er fyrst og fremst yfirvöldum að kenna, hvort sem er sveitarstjórnum eða ríkisstjórninni, yfir á fólkið í landinu? Ætlar ríkisstjórnin ekki að grípa til neinna almennra aðgerða? Eiga þær allar að vera sértækar fyrir ákveðna hópa? Hvað á að gera fyrir unga fólkið? Hvað á að gera til að sporna gegn spákaupmennsku sem keyrir upp íbúðaverðið? Hvað á að gera til þess að auka framboð íbúða, vegna þess að þessi hópur virkaði hreinlega ekki neitt? Og hvenær á að gera það? Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra kjaraviðræður haustsins fyrir sér, fari allt sem horfir, án þess að ríkisstjórnin grípi inn í með raunhæfum hætti, (Forseti hringir.) eins og með því að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni? Fólkið þarf aðgerðir núna.