152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

húsnæðisliður í vísitölunni.

[11:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Sá hópur sem ég vitnaði til, sem hv. þingmanni finnst ekki neitt neitt, hann er skipaður með aðkomu fulltrúa fólksins, þ.e. aðkomu fulltrúa stjórnmálanna, verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, sveitarfélaga. Þar situr þetta fólk saman sem skilaði góðum tillögum síðast, sem tryggði stóraukið framboð á íbúðum. Það hefur sjaldan verið byggt meira en á þessum árum vegna aðkomu hins opinbera, ríkisins. Við skulum hafa það í huga, herra forseti, þegar við ræðum þessi mál — þar með er ég ekki að segja að vandinn sé leystur — að þegar við tökum ákvarðanir um aðgerðir þurfum við líka að vera viss um að þær styðji við þau sem einmitt þurfa á því að halda og ég hef rætt það hér áður. Þar vil ég sérstaklega nefna þau sem eru á leigumarkaði, sem er bæði ótryggur en líka mjög næmur fyrir verðhækkunum, en ekki síður þau sem eru utan fasteignamarkaðar og komast ekki inn á fasteignamarkað. Þess vegna settum við af stað hlutdeildarlánin. Þau hafa gengið vel og við þurfum að huga að slíkum aðgerðum, herra forseti.