152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:25]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þessar athugasemdir hv. þingmanns, hér kemur alltaf upp sama svarið; það er stýrihópur sem er verið að skipa, það er nefnd sem er í vinnslu. Fólk virðist vanta þingmál til að leggja fram. Við í stjórnarandstöðunni lögðum til að mynda fram þingsályktunartillögu fyrir nokkrum vikum þar sem við leggjum til úrbætur fyrir þessa hópa. Ef fólk vantar hugmyndir eru þær til. Það er alltaf verið að endurvinna sömu klausurnar, fá sama hópinn að borðinu og svo gerist ekkert. Það er verið að hreykja sér fyrir staðreyndir, í rauninni endurteknar staðreyndir sem standast ekki skoðun. Við heyrðum það í gær, frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til að mynda, að þessi þriðjungur af opinberum íbúðum sem eiga að hafa verið byggðar í fyrra var ekkert þriðjungur, það var einfaldlega markmiðið. Það er verið að vitna í gömul fyrirheit sem hefur ekki verið staðið við og svo er því sama lofað aftur. Ég tek því undir með hv. þingmanni: Hvar eru þessi þingmál? Hafið þið ekki bara áhuga á því, hæstv. ríkisstjórn, að samþykkja þingsályktunartillögu okkar?