152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nálgast svona hluti greinilega frá allt öðru sjónarhorni en hæstv. ráðherra, að af því að eitthvað sé ekki á dagskrá samkvæmt skoðanakönnunum eða einhverju slíku þá megi ekki ræða það. Þvert á móti hefur Viðreisn einmitt verið að ræða nokkurn veginn linnulaust Evrópusambandið, aðildina að Evrópusambandinu, peningamálin, evruna og núna líka öryggis- og varnarmál, þó að það sé ekki mjög „sexí“, þó að það sé ekki endilega alltaf á dagskrá þjóðarinnar. Það er hlutverk flokka og forystu flokkanna að leiða þjóðina áfram og reyna að sannfæra þjóðina um það af hverju ákveðnir hlutir eru betri og af hverju öryggi landsmanna sé betur tryggt til að mynda með aðild að Evrópusambandinu og ég fór yfir það áðan.

Því meira sem ég hlusta á ræður í dag frá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þeim mun meira byrja ég að efast um að verið sé að gæta ýtrustu hagsmuna eða skoða og meta þá hagsmuni sem við þurfum að láta fara yfir. Það er af því að það er einfaldlega erfitt fyrir forystuflokkinn í ríkisstjórn að ræða um varnarsamninginn, að ræða um NATO. Ég verð að hvetja hæstv. ráðherra sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins til að halda vel utan um þessi mál. Það er bara þannig að við erum ekki einu sinni búin að sjá uppfærslu á þjóðaröryggisstefnunni sem átti að uppfæra í fyrra. Er það tilviljun að henni er ekki sinnt betur, þjóðaröryggisstefnunni sem ríkisstjórnin skýlir sér á bak við, að það er ekki einu sinni búið að uppfæra hana þótt það hafi átt að vera búið að gera það?

Ég vil líka spyrja ráðherrann, fyrst hún er hér í andsvörum: Hvað með varnarsamninginn? Er hæstv. ráðherra líka sammála því að við eigum ekki að uppfæra samninginn? Því að sú uppfærsla sem hefur verið byggist auðvitað á grunni varnarsamningsins. Það er mikilvægt að hafa í huga. (Forseti hringir.) Það er ekki búið að uppfæra samninginn sem slíkan, hann er alltaf til staðar. Meðan við erum enn þá óörugg (Forseti hringir.) með það hvernig eigi að bregðast við, hvernig við eigum að kalla til Bandaríkjamenn, hvort samningurinn nái yfir netöryggi eða ekki, (Forseti hringir.) þá verðum við að fá skýrar línur í það. Það þýðir greinilega ekki að bíða eftir því að þjóðaröryggisstefnan sé uppfærð til dagsins í dag.

(Forseti (LínS): Forseti vill minna hæstv. ráðherra og hv. þingmenn á að ræðutíminn er takmarkaður.)