152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[16:07]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skelegga ræðu og auðvitað getur maður treyst á það að þegar orðið Evrópusambandið er notað í hans munni þá verður andlitið gjarnan svolítið rautt og því fylgir svolítil reiði því að það hefur ekki farið fram hjá neinum hver afstaða hæstv. ráðherra er til Evrópusambandsins, hvorki nú né fyrr. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka sér penna í hönd eða setjast við tölvuna sína, skrifa grein og birta í helstu dagblöðum í Evrópu og tala skýrt fyrir því að það sé ekki viðskiptafrelsi í Evrópu. Ég myndi gera það snarlega og sjá hver viðbrögðin verða.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann gert mikið af því þegar hann hefur verið á fundum með ráðamönnum í Evrópu í utanríkisráðherratíð sinni að fullyrða þetta við þá, að þeir búi ekki við viðskiptafrelsi, að það sé þannig í Danmörku, það sé þannig í Svíþjóð, það sé þannig í Finnlandi, það sé þannig í Þýskalandi eða Frakklandi eða öllum ríkjum Evrópu að menn búi ekki við viðskiptafrelsi? Þetta er auðvitað málflutningur sem heldur ekki neinu vatni. Það er bara þannig.

Þegar við erum að meta aðildina að Evrópusambandinu, og ég get ímyndað mér að hæstv. ráðherrann sé svolítið órólegur núna vegna þess að hann er að sjá það hvernig afstaða landsmanna er að breytast í skoðanakönnunum allhressilega, fléttast öryggis- og varnarmál inn í þetta vegna þess að þjóðir Evrópu eru þarna með samráðsvettvang til þess m.a. að grípa til aðgerða, mjög harkalegra efnahagsráðstafana gagnvart Rússum sem er heldur betur að hafa áhrif á stríðsrekstur Pútíns og það hversu fast land undir fótum hann hefur heima fyrir.

Við verðum að tala um mannréttindamál líka í þessu samhengi. Við þurfum að tala um gjaldmiðil. Við þurfum að tala um efnahagsmálin almennt og að nota hitaveituna hér sem einhver sérstök rök fyrir máli sínu og sem einhvers konar punkt gegn Evrópusambandinu er svo langsótt að ég ætla ekki að elta neitt sérstakar ólar við það. Þetta er einfaldlega spurning um alhliða og mjög víðtækt hagsmunamat fyrir þjóðina. (Forseti hringir.) Það getur breyst á hverjum tíma fyrir sig en það er ekkert fráleitt að halda því fram (Forseti hringir.) að aðild eða umræða um aðild að Evrópusambandinu sé heppilegri í dag en á öðrum tímum, einfaldlega vegna þess að afstaðan í Evrópu í (Forseti hringir.) friðar og varnarmálum er breytast hratt og hæstv. ráðherra veit það mætavel.