152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[16:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla bara að skilja hæstv. ráðherra eftir með þá ábendingu að víst er til eitthvað sem heitir áheyrnarfulltrúi að þessum samningi. Það hef ég bara upp úr bréfi sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna sendi öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna í september á síðasta ári. Ég ætla að byrja á því að lesa þetta upp á ensku og svo skal ég snara því yfir: „The Secretary-General also has the honour to invite States not parties to the TPNW to attend a meeting of States parties as observers in accordance with article 8, paragraph 5 of the TPNW.“ Aðalritari Sameinuðu þjóðanna er því sérstaklega búinn að benda ríkjum sem eru í Sameinuðu þjóðunum á að 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum býður sérstaklega upp á það að ríki geti mætt sem áheyrnarfulltrúar eins og Noregur og Þýskaland ætla að gera vegna þess að þannig sýnum við móralskan stuðning því verkefni sem við hljótum öll að vera sammála, hvort sem við viljum vera formlega í liði með kjarnorkuveldunum eða ekki. Við hljótum öll að vera sammála um að við þurfum að beita öllum ráðum til að útrýma þessum vopnum. Já, aðalritari Sameinuðu þjóðanna — ég hvet ráðherra til að hlusta á hann þó að ekki sé hlustað á mig.