Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:44]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það ætti svo sem ekki að koma neinum í þessum sal á óvart að við erum að fara að ganga til atkvæðagreiðslu um fjárlög 2023. Að baki er Covid, tvö ár þar sem við þurftum að taka verulega á okkur, ekki síst ríkisvaldið. Og það ætti ekki heldur að koma neinum á óvart, ef þeir horfa yfir heiminn, að allir ríkissjóðir í heimi hafa nákvæmlega gert það, spýtt í og tekið á. Og svo mun það taka nokkur ár nema menn séu í þessum sal að leggja til verulegan niðurskurð í samfélaginu, sem við getum ekki. Við erum á erfiðum stað. Það er þensla á næsta ári. En á sama tíma þurfum við líka að taka utan um þá sem minnst hafa. Við erum að reyna að gera það, bæði með fjárlagafrumvarpinu sem og bandorminum og mér sýnist að það gangi býsna vel. Þær raddir sem ég heyri hérna hljóma ýmist: Að hækka skatta eða gera þetta eða gera hitt eða fara í niðurskurð af því að þetta séu allt of mikil útgjöld. Þau eru sannarlega 118 milljarðar. Þannig að allar útgjaldatillögur, allar tillögur um að falla frá tekjum munu auka hallann. Allar. Og þær tillögur (Forseti hringir.) sem við erum hér sökuð um að hafa ekki náð fram — það er vegna þess að þær hefðu þurft að koma fram fyrr. (Forseti hringir.) Tæknilega væri ekki hægt að framkvæma þær. Það er vandasamt, til að mynda af því við erum að tala um bændur, (Forseti hringir.) að leggja á einhverjar 100, 200 milljóna viðbótarkostnað á þá þegar við höfum verið að bæta í. (Forseti hringir.) En það er vegna þess að við erum með hringrásarhagkerfið. (Forseti hringir.) Við verðum að horfa á hlutina í samhengi. Og fiskeldisgjaldið er því miður ekki hægt leggja á af því að það hefði þurft að koma fyrir 1. desember. (Forseti hringir.) Ég hefði stutt það ella.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími er aðeins ein mínúta þegar hv. þingmenn taka til máls um atkvæðagreiðslu.)