Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

tóbaksvarnir.

530. mál
[20:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir þessar spurningar. Stórar spurningar. Sú fyrsta sneri að því hvað þeim sem hér stendur finnst um ábyrgð einstaklinganna á sjálfum sér. Eftir sem áður þá berum við ábyrgð á okkur sjálfum. Það fer ekkert frá okkur. Næsta spurning er kannski þessu tengd, hvort að ég hafi trú á því að þessi tilskipun, innleidd í lög um tóbaksvarnir með breytingum, muni hafa áhrif. Já, ég trúi því. Ég trúi því að allt það sem við höfum gert hér í þá átt, sérstaklega með börn og unglinga í huga, að draga úr tóbaksnotkun hafi gengið eftir ef við bara skoðum tölfræðina og ég hef þá trú að þetta muni jafnframt ganga í þá átt og er reyndar sannfærður um það. Svo skulum við líka hugleiða að heimurinn er raunverulega bara allur á leiðinni í að banna tóbak yfir höfuð. Það er bara staðan. Það er eiginlega alveg sama hvar ég kem erlendis, ég er spurður út í íslenska módelið, hvað við höfum raunverulega gert, hvernig við höfum náð þessum árangri í að draga úr tóbaksnotkun, ekki bara barna og unglinga en það er sérstaklega tekið fram. Við höfum náð markverðum árangri á þessu sviði. Ef við yfirfærum þetta á lýðheilsu og setjum í eitthvert samhengi við heilsu þá skiptir þetta alveg ótrúlega miklu máli.