Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

tóbaksvarnir.

530. mál
[20:12]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, ég tek undir það að við erum búin að ná miklum árangri og ég held að sá árangur hafi falist í menningarlegri breytingu og sá árangur var byrjaður að koma mjög sterkt fram með lýðheilsuátaki og umræðubreytingu og viðhorfsbreytingu, löngu áður en við fórum að auka boð og bönn í þessu. Frá því að við byrjuðum að herða tóbaksvarnalöggjöfina er búið að koma alls kyns snus, neftóbak, munntóbak og rafrettur og hinsegin rettur og það er enn þá nýsköpun í þessu þannig að að einhverju leyti hefur neyslan farið úr venjulegum sígarettum í einhverjar aðrar vörur, misheilbrigðar og kannski ekki allar tóbaksvörur. Það var kannski það sem ég var að spyrja hæstv. ráðherra, hvað hann haldi um það. Vatnið finnur sér alltaf leið. Og meðan við erum að dunda okkur hér, erum að eyða fjármunum og nýta embættismannakerfið og eyðum allri umræðunni og tímanum í það að setja hér boð og bönn, hvað hefðum við getað náð miklum árangri með því sem ég nefndi áðan, að breyta menningunni og viðhorfunum? Fara í forvarnir og fræðslu og einbeita okkur að því í staðinn fyrir að setja boð og bönn um eitthvað sem er hvort sem er á undanhaldi og einhverjar aðrar vörur búnar að taka við af og börn og unglingar eru örugglega fyrst til að finna þær? Þá kem ég að lokum að því að auðvitað snýst þetta alltaf um að foreldrar taki ábyrgð á börnum sínum og taki líka ábyrgð á sjálfum sér.