Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[21:02]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Hér er mælt fyrir öðru frumvarpi til að hvetja til samdráttar í losun frá útgerð. Ekki er ástæða til annars en að fagna öllum aðgerðum sem eiga að draga úr losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum. Eins og ég vék að áðan í máli mínu þá hafa allnokkrar rannsóknir farið fram á losun frá fiskveiðum við Ísland. Þessar rannsóknir, sem vissulega staðfesta orð hæstv. ráðherra, sýna að sá verulegi árangur sem náðst hefur í samdrætti í losun frá fiskveiðum skýrist fyrst og fremst með stækkun fiskstofna.

Í öðru sæti yfir áhrifaþættina eru síðan kolefnisgjöld eða verð á eldsneyti. Eins og ég vék að í máli mínu áðan eru kolefnisgjöldin hagkvæmasta leiðin til að ná þeim árangri sem þessum frumvörpum er ætlað að ná vegna þess að þau skapa heilbrigða hvata til að velja hagkvæmustu tæknilausnir sem völ er á og löglegar eru á hverjum tíma. Öll fyrirtæki standa frammi fyrir sömu spurningunni, að draga annaðhvort úr losun eða greiða gjaldið og velja þann kostinn sem er hagkvæmari. Við vitum þá nákvæmlega hvað barátta okkar við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda kostar. Jafnframt uppfyllir þessi aðferð, kolefnisgjöldin, þau viðmið sem miðað er við að jafnaði þegar um mengandi atvinnustarfsemi er að ræða, að sá sem mengar borgar. Hér er hins vegar verið að rýmka heimildir með tilkostnaði sem ekki liggur fyrir og sú rýmkun kemur alfarið frá ríkinu og er lögð fram af því, þ.e. það er ekki sá sem mengar sem borgar heldur ríkið sem borgar.

Ég vil þó sérstaklega aftur taka undir varnaðarorð hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um áhyggjur af auknu aðgengi stærri skipa að grunnslóð við Ísland. Í máli hæstv. ráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar kom fram að fyrirhugaðar eru rannsóknir á áhrifum veiða stærri skipa á grunnslóð. Hvernig væri að við lykjum þeim rannsóknum fyrst og fengjum niðurstöður um hver þau áhrif eru? Ég hygg að ráðherrann sé vel að sér í svokallaðri varúðarnálgun, að náttúran njóti vafans. Henni ætti að beita hér.

Að auki verð ég að vara við að stigið sé lengra út á þá braut að beita ívilnunum frekar en gjaldtöku við að hvetja til umhverfisvænnar hegðunar. Vandamálið með ívilnanirnar er að í mörgum tilfellum, eins og þessu, vitum við ekki hvað þær kosta og það hlýtur að skipta okkur máli ef við ætlum að ná þeim metnaðarfullu áformum sem Ísland hefur sett sér í umhverfismálum að við vitum hvað þær aðgerðir kosta. Þetta verður ekki sársaukalaust, þetta verður dýrt og erfitt. Að gera það dýrara og erfiðara er ekki skynsamlegt fyrsta skref. Auðvitað er þetta mál á fyrstu stigum og fer væntanlega héðan til nefndar og til vandaðrar umfjöllunar þar. En við hljótum að spyrja okkur sömu spurninga: Hvers vegna telja stjórnvöld sig megnug að velja tæknilausnir fyrir sjávarútveginn? Ég efast ekki um snilli þeirra sem hér starfa en hlýtur ekki sjávarútvegurinn sjálfur að vera betur til þess fallinn að velja fyrir sjálfan sig tæknilausnir? Hvers vegna ekki frekar að nota kolefnisgjöld? Hvers vegna að nota ívilnanir sem við vitum ekki hvað kosta? Hvers vegna að leggja áherslu á óprófaðar tæknilausnir þegar við getum raunverulega bara skapað hvatann fyrir útgerðina til þess að finna lausnirnar sjálf?