Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[21:07]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 681, 539. mál, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Líkt og komið hefur fram í framsögu minni um tvö síðustu dagskrármál er nauðsynlegt að skapa skilyrði fyrir auknum árangri í orkuskiptum í sjávarútvegi. Þetta frumvarp er hluti af þeim verkefnum sem ýta undir orkuskipti í sjávarútvegi.

Frumvarpið kveður á um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem stuðla á að því að eigendur smábáta eða minni fiskiskipa á strandveiðum sjái hvata til þess að fjárfesta í nýjum bátum eða skipum eða gera breytingar á bátum og skipum sínum þannig að þau gangi fyrir rafmagni með drifrafhlöðum í stað jarðefnaeldsneytis.

Frumvarpið hefur verið unnið í matvælaráðuneyti í samráði við stofnanir, hagsmunaaðila og almenning með birtingu áforma og frumvarpsdraga í samráðsgátt stjórnvalda. Ég mun nú víkja nánar að einstökum þáttum frumvarpsins.

Í 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða er fjallað um strandveiðar, um leyfi, tímabil, svæðaskiptingu, aflamagn og önnur skilyrði strandveiða, m.a. um að á hverju fiskiskipi sé aðeins heimilt að draga 650 kíló í þorskígildum talið af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.

Í frumvarpinu er lagt til að við 5. tölul. 6. mgr. 6. gr. a laganna bætist nýr málsliður um að á fiskiskipi verði heimilt að draga allt að 750 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð, ef skipið er skráð sem rafknúið skip á skipaskrá, sbr. 5. gr. laganna, í stað 650 kg eins og mun gilda áfram fyrir hefðbundin fiskiskip á strandveiðum. Þetta þýðir að þau sem eru á rafvæddum bátum á strandveiðum hafa auknar veiðiheimildir í hverri veiðiferð á strandveiðum til að koma til móts við kostnað við nýja tækni á strandveiðum.

Í umræðunni í dag, við tvö síðustu dagskrármál, hefur talsvert verið komið inn á kolefnisgjald og ég vil fá að segja í tilefni af þeirri umræðu að ég er sammála því að kolefnisgjald er mikilvæg leið til að ná árangri í loftslagsmálum. Ég deili þeirri sýn hv. þm. Daða Más Kristóferssonar. Það er eitthvað sem t.d. OECD hefur bent á margoft, m.a. í úttektum hér á Íslandi, að þurfi að beita í meira mæli þannig að ég vil fá að taka undir það en jafnframt leggja áherslu á að þess frumvörp sem hér eru lögð fram eru kannski fyrst og fremst til þess að reyna að taka á ákveðnum, hvað eigum við að segja, reglum sem gilda, t.d. stærðarviðmiðun skipa, tæknilegum atriðum sem skiptir máli að rýmka fyrir um þegar almenn orkuskipti geta í meira mæli átt sér stað á næstu árum.

Frú forseti. Frumvarpið var ekki talið gefa tilefni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar en þó má segja að markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við fiskveiðar er í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

Ekki er talið að ákvæði frumvarpsins muni hafa fjárhagsáhrif á ríkissjóð. Þær breytingar sem lagðar eru til munu falla undir stjórnsýslu Fiskistofu. Þá er gert ráð fyrir að Samgöngustofa muni skrá rafvædda báta á skipaskrá og tryggja eftirlit með þeim. Ekki er talið að ákvæði frumvarpsins hafi áhrif á stöðu kynjanna. Þótt frumvarpi þessu sé eingöngu ætlað að ná til rafvæðingar smábáta á strandveiðum er frumvarpið eitt af nokkrum frumvörpum sem hafa verið í vinnslu í ráðuneytinu á sviði orkuskipta.

Frú forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlega fjallað um efni þess. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.