154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

Með tillögunni er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra falið að vinna stefnumótandi aðgerðir til ársins 2025 til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi. Aðgerðirnar byggjast á þremur meginsviðum sem fela í sér tiltekin meginmarkmið og aðgerðir. Í fyrsta lagi eru meginmarkmið í háskóla- og vísindastarfi. Í öðru lagi eru meginmarkmið í nýsköpun og hugverkaiðnaði og í þriðja lagi eru meginmarkmið í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi. Unnið verði að þessum markmiðum með skilgreindum aðgerðum í samstarfi við hagaðila.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti og það liggur frammi. Nefndin óskaði jafnframt eftir umsögnum um tiltekin atriði málsins frá atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd og fylgja umsagnir þeirra sem fylgiskjöl með nefndaráliti meiri hlutans.

Nefndin fjallaði um aðgerðir sem styðja markmið í háskóla- og vísindastarfi og samkvæmt tillögunni verður stutt við átak í þverfræðilegri kennslu með STEAM-nálgun í kennsluaðferðum. Í því felst samþætting vísinda, tækni, verkfræði, lista og stærðfræði í gegnum viðfangsefni nemenda sem liður í því að þjálfa gagnrýna hugsun og nálgast lausnir á viðfangsefnum með skapandi hugarfari til að efla nýsköpun og frumkvöðlastarf.

Í umsögnum og fyrir nefndinni var fjallað um kennsluaðferðir og mikilvægi annarra greina en raungreina til að mæta framtíðaráskorunum. Þannig var bent á mikilvægi hug- og félagsvísinda í vísindasamfélaginu. Þá var í umsögn Listaháskóla Íslands m.a. lögð áhersla á vægi listanna sem hafi ótvírætt vægi í sjálfu sér en ekki einungis sem verkfæri í STEAM-nálgun í kennslufræðum.

Fyrir nefndinni var tekið undir mikilvægi þess að raungreinar séu efldar með áherslu á skapandi aðferðafræði en að það megi ekki verða á kostnað annarra greina. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram koma hjá umsagnaraðilum og í minnisblaði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, þar sem fram kemur að það sé ekki síður mikilvægt að STEAM-aðferðafræði og aukin þverfagleg nálgun milli námsleiða veiti aukin tækifæri til að efla nám í listum og skapandi greinum hér á landi. Háskóla- og menntakerfið í heild sinni er lykilþáttur í að stuðla að nýsköpun og hagnýtingu þekkingar fyrir atvinnulífið og samfélagið allt og mikilvægt er að styðja við þverfræðilega nálgun í kennsluaðferðum.

Nefndin fjallaði líka um fjármögnun háskólastarfs, aukið samstarf háskóla og Menntasjóð námsmanna. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að unnið sé að nýjum reglum og reiknilíkani fyrir fjármögnun háskólastarfs og hvetur til að það verði gert í samráði við hagaðila. Þá tekur meiri hlutinn undir mikilvægi þess að auka samstarf háskóla enda er aukið og öflugt samstarf allra íslensku háskólanna ein af forsendum aukinna gæða námsins.

Þá var fyrir nefndinni fjallað um Menntasjóð námsmanna, en líkt og fram kemur í greinargerð er á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis unnið að greiningu á framkvæmd laganna í samvinnu við hagaðila sem verður kynnt í formi skýrslu á yfirstandandi löggjafarþingi. Landssamtök íslenskra stúdenta og stúdentaráð HÍ ítreka kröfur vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna og þá grundvallarafstöðu að allar breytingar á sjóðnum verði til þess gerðar að efla hlutverk hans sem félagslegs jöfnunarsjóðs og með hag stúdenta að leiðarljósi. Háskólinn á Bifröst telur jafnframt brýnt að jöfnunarhlutverk Menntasjóðs námsmanna verði skoðað sérstaklega og Byggðastofnun bendir á að sérstaklega þurfi að tryggja stöðu þeirra sem flytja þurfi búferlum vegna náms. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að á hverjum tíma sé fylgst með því hvernig gangi að uppfylla markmið Menntasjóðs námsmanna. Við samþykkt laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, var gert ráð fyrir að þau yrðu endurskoðuð innan þriggja ára frá því að þau komu til framkvæmda og er því mikilvægt að það verði gert sem fyrst.

Nefndin fjallaði að auki um aðgengi að háskólanámi og eflingu fjarnáms. Ein aðgerð sem ætlað er að styðja markmið í háskóla- og vísindastarfi varðar að auka jafnrétti í háskólum með sérstaka áherslu á fjölgun ungra karla í háskólanámi og aukið fjarnám. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að hugað verði að jafnrétti í sem víðustum skilningi í íslensku háskólasamfélagi. Líkt og tilgreint er í greinargerð fellur m.a. undir þessar aðgerðir jafnrétti óháð kynferði, búsetu, efnahag, kynhneigð og þjóðernisuppruna, sem og aðgengi fatlaðs fólks til að stunda háskólanám. Óhjákvæmilegt er að líta það alvarlegum augum að hlutfall ungra karla í háskólanámi er miklu lægra en kvenna. Á sama tíma eru einnig hlutfallslega færri ungir Íslendingar með háskólagráður en í samanburðarlöndunum. Finna verður leið til að auka aðsókn ungra karla í háskólanám og um leið fjölga ungu fólki sem lýkur háskólanámi.

Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að unnið sé að stefnumótun um þekkingarsetur háskólastigsins sem gerð er grein fyrir í greinargerð. Þekkingarsetur gegnir mikilvægu hlutverki í þjónustu við nemendur á landsbyggðinni og stuðlar að jafnari tækifærum til náms, miðlun og hagnýtingu þekkingar og eflingu byggðar í samstarfi við háskólastofnanir, stuðningsumhverfi nýsköpunar og atvinnulíf í byggðum landsins. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og bendir á að aðgangur að fjarnámi á háskólastigi eigi því bæði við um háskólanám og grunnnám og símenntun, og skipti því jafnt einstaklinga, fyrirtæki og samfélög miklu máli.

Aukið aðgengi að fjarnámi tengist jafnframt meginmarkmiðum tillögunnar í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi, um að tengja byggðir landsins og Ísland við umheiminn og að innviðir og þjónusta mæti þörfum almennings og atvinnulífs. Hvað varðar örar framfarir í vísindum og tækniþróun, m.a. með aukinni notkun upplýsingatækni og tæknilausna í samskiptum, leggur Siðfræðistofnun Háskóla Íslands áherslu á það í umsögn sinni að siðferðileg og samfélagsleg sjónarmið verði órjúfanlegur þáttur í stefnumótun fyrir íslenskt þekkingarsamfélag. Meiri hlutinn leggur áherslu á að aukið aðgengi að fjarnámi í ólíkum fögum sé ein öflugasta leiðin til að jafna aðgengi mismunandi hópa að háskólanámi. Með auknu framboði á fjarnámi og með bættri tækni má efla allar byggðir landsins og skapa ný tækifæri fyrir einstaklinga sem þar búa.

Þá fjallaði nefndin um stuðningsumhverfi nýsköpunar og jöfn tækifæri og í tengslum við umfjöllun um bætt aðgengi að námi var jafnframt fjallað um jöfn tækifæri og aðgengi að stuðningsumhverfi nýsköpunar. Meiri hlutinn tekur undir að áhersla verði lögð á jafnrétti og fjölbreytileika í stefnumótun á sviði fjármögnunar og í stuðningi við nýsköpun og þekkingargreinar, m.a. að safnað verði upplýsingum og staða áhersluverkefna verði greind. Í umsögn Byggðastofnunar var lagt til að auk kyngreindra upplýsinga verði upplýsingar einnig greindar eftir landfræðilegri skiptingu og einnig litið til búsetu til viðbótar við mismunandi aldurshópa, þjóðerni, uppruna, fötlun og samfélagslegar aðstæður. Meiri hlutinn tekur undir ábendingu Byggðastofnunar hvað varðar greiningu á jöfnum tækifærum í nýsköpunarverkefnum og fjármögnun þeirra og leggur til að ráðuneytið fylgi þeim eftir við framkvæmd aðgerðanna svo að horft verði til mismunandi þjóðfélagshópa og landfræðilegrar skiptingar sem ráðuneytið tekur jafnframt undir í minnisblaði til nefndarinnar, dagsettu 6. desember 2023.

Þá bendir meiri hlutinn á það sem fram kemur í minnisblaði um að ýmis verkefni beinist að því markmiði að auka fræðslu á sviði nýsköpunar og miði m.a. að því að kynna fyrir ungu fólki þá möguleika sem felast í því að auka færni sína og þekkingu í takt við örar breytingar í samfélaginu.

Fyrir nefndinni var fjallað um mikilvægi þess að efla nýsköpunarstarf á landsbyggðinni samhliða öðrum markmiðum tillögunnar, m.a. með uppbyggingu á umhverfi og regluverki sem hvetji til nýsköpunar og eflingar hugvitsgreina á sem flestum sviðum samfélagsins.

Líkt og segir í greinargerð er jafnrétti lykilþáttur í áherslum stjórnvalda og afar mikilvægt að nýsköpunar- og frumkvöðlastarf eigi sér stað hjá fjölbreyttum hópi fólks við ólíkar aðstæður og í mismunandi umhverfi. Eitt af forgangsverkefnum stjórnvalda felst í endurskoðun á umhverfi samkeppnissjóða með það að markmiði að tryggja að styrkveitingar skili sér þangað sem þörfin er mest, m.a. verði litið til mismunandi stöðu kynjanna við styrkúthlutanir. Skoða þurfi ferlið í heild og endurskoða úthlutunarreglur og umhverfi nýsköpunar og stuðla að meiri árangri með aukinni fjölbreytni í nýsköpun og þróun og fjárfestingum því tengdum.

Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem að framan hafa verið rakin og lúta að eflingu jafnra tækifæra til nýsköpunar, ekki síst á landsbyggðinni, sem getur eflt samfélög og skapað eftirsótt störf. Meiri hlutinn telur mikilvægt að stofnanir líkt og Íslandsstofa og Rannís eigi verkefnabundið samstarf við samstarfsaðila í öllum landshlutum til að mögulegt sé að ná þeim markmiðum sem þeim er ætlað að vinna framgang á hverjum tíma. Í því ljósi leggur nefndin áherslu á að opinbera stoðkerfið þarf að tryggja að til staðar séu starfsmenn við markaðsmál og atvinnuþróun í öllum landshlutum til að styðja framgang áhersluverkefna stjórnvalda með samstarfsverkefnum og til að skapa farvegi fyrir aðgang einstaklinga að stoðkerfi nýsköpunar.

Þá fjallaði nefndin um hugvit í þágu loftslagsmála, sjálfbærni og matvælaframleiðslu. Meginmarkmið tillögunnar fyrir nýsköpun og hugverkaiðnaðinn snúa m.a. að því að stjórnvöld stuðli að hagnýtingu nýrra lausna til að takast á við samfélagslegar áskoranir. Staðan í loftslagsmálum krefst orkuskipta á öllum sviðum samfélags, breytinga í landbúnaði og ekki síst framþróunar, nýsköpunar og nýtingar nýrra og betri lausna á sviði iðnaðar. Hugvit skal virkjað sem víðast til að leysa úr stórum samfélagslegum viðfangsefnum, svo sem með auknum árangri í loftslagsaðgerðum. Meiri hlutinn telur mikilvæg sóknarfæri í aðgerðum sem snúa að hugviti í þágu loftslagsmála, sjálfbærni og matvælaframleiðslu. Það felast ýmis tækifæri til verkefna hér á landi og í alþjóðlegu samstarfi byggðu á íslensku hugviti sem varðar jafnframt eflingu nýsköpunar á landsbyggðinni.

Meiri hlutinn tekur undir markmið tillögunnar og þá framtíðarsýn sem er boðuð. Ljóst er að þrátt fyrir að opinber stuðningur við nýsköpun og hugverkaiðnaðinn hafi vaxið á síðustu árum er margvísleg þörf til umbóta í opinberum aðgerðum og sannarlega tækifæri til að gera betur í því að hugvit verði grunnur að stærstu útflutningsgrein landsins.

Þá lýstu umsagnaraðilar almennt yfir stuðningi við meginmarkmið tillögunnar en komu jafnframt með ýmsar ábendingar. Meiri hlutinn áréttar það sem fram kemur í greinargerð með tillögunni um að horft verði til ábendinga sem koma fram í umsögnum um þingmálið við útfærslu aðgerðaáætlunarinnar og leggur áherslu á að sérstaklega verði horft til þeirra ábendinga er meiri hlutinn dregur fram í nefndarálitinu.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jódís Skúladóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir.

Frú forseti. Stefna um þekkingarsamfélag á Íslandi byggist á sýn um að lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi sé að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Í því felst að hægt sé að vaxa úr sveiflukenndu efnahagsástandi með því að beina sjónum að alþjóðageiranum en honum tilheyra öll fyrirtæki sem fá útflutningstekjur sem byggja á öðru en okkar takmörkuðu auðlindum. Forsenda slíks vaxtar eru breyttar áherslur í menntakerfinu, í vísindum, nýsköpun, sjálfbærum þekkingariðnaði, upplýsingatækni, gervigreind, öflugum fjarskiptum og netöryggi. Með því að virkja hugvitið skapast aðstæður fyrir innlenda og alþjóðlega sérfræðinga í nýjum og áhugaverðum störfum í þekkingariðnaði á Íslandi.

Framúrskarandi háskóla- og vísindafólk hefur á undanförnum árum komið að stofnun fjölmargra nýrra þekkingarfyrirtækja og lagt til þeirra dýrmæta þekkingu og reynslu, til að mynda á sviði líftækni, lyfjaframleiðslu, tölvuleikjaiðnaðar og nýsköpunar í hefðbundnum atvinnugreinum eins og sjávarútvegi, með yfirfærslu þekkingar og reynslu yfir í alþjóðleg fyrirtæki með fjölbreytta starfsemi.

Mikilvægt er að halda til haga að nýsköpun byggist ekki einungis á háskóla- og vísindastarfi þar sem stofnuð eru ný fyrirtæki heldur felst hún einnig og ekki síður í umbótastarfi í fyrirtækjum sem þegar eru til staðar og standa í sumum tilfellum á gömlum merg. Fyrirtæki sem byggðu í upphafi þekkingu sína og reynslu t.d. á sjávarútvegi eða jarðhita hafa þróast yfir í háþróuð tæknifyrirtæki á alþjóðavettvangi og öflugt nýsköpunarstarf á sér stað víða í iðnfyrirtækjum hér á landi.

Ljóst er að þrátt fyrir að opinber stuðningur við nýsköpun og hugverkaiðnað hafi vaxið til muna á síðustu árum er margvísleg þörf til umbóta í opinberum aðgerðum og sannarlega tækifæri til að gera betur í því að hugvit verði grunnurinn að stærstu útflutningsgrein landsins.

Þá krefst staðan í loftslagsmálum orkuskipta á öllum sviðum samfélags, breytinga í landbúnaði og ekki síst framþróunar, nýsköpunar og nýtingar nýrra og betri lausna á sviði iðnaðar. Hugvit skal virkjað sem víðast til að leysa úr stórum samfélagslegum viðfangsefnum, svo sem með auknum árangri í loftslagsaðgerðum.

Þessari þingsályktunartillögu um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi er því ætlað að stuðla að því að leysa úr læðingi þá krafta sem myndast við samþættingu hugmynda og hreyfiafls í hugvitstengdum greinum. Með þessum kröftum gefst tækifæri til að skapa ný störf og ný tækifæri, auka vöxt og verðmætasköpun íslensks atvinnulífs og bæta lífsgæði þjóðarinnar til lengri tíma.

Virðulegur forseti. Frá og með árinu 2024 lýkur tímabundinni hækkun framlaga í Rannsóknasjóð. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 er þó gert ráð fyrir að 75% af þeirri tímabundnu hækkun verði gerð varanleg. Þannig er gert ráð fyrir að framlög í Rannsóknasjóð séu um 3,2 milljarðar á árinu 2024. Til viðbótar við framlög í Rannsóknasjóð má benda á fleiri aðgerðir á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins til að efla rannsóknir. Þannig má nefna aukið fjármagn til háskóla í tengslum við árangurstengda fjármögnun háskóla. Þá hefur verið sérstök áhersla á umbun fyrir rannsóknir í nýju reiknilíkani og þetta er mikil breyting frá því sem er í núverandi reiknilíkani.

Árið 2022 var 1,2 milljörðum varið í stuðning við samstarf háskóla og var áhersla lögð á 12 áherslumál er tengjast samstarfinu. Á árinu 2023 var áfram afmarkaður 1 milljarður kr. sem var varið í stuðning við samstarf háskóla og þá lögð áhersla á sex áherslumál er tengjast samstarfinu. Árið 2024 er áætlað að 1 milljarði kr. verði varið í samstarf háskóla. Aðrar aðgerðir stjórnvalda til að styðja við rannsóknainnviði eru til að mynda samstarf háskóla þar sem rannsóknainnviðir eru eitt af áhersluatriðunum. Í síðustu úthlutun fékk m.a. eitt verkefni stuðning sem beinist að deilihagkerfi innviða en Háskóli Íslands hefur umsjón með því verkefni. Í því ljósi er mjög áhugavert að fylgjast með því sem er að gerast í samstarfi Vísindagarða HÍ og Alvotec. Þá er stuðningur við Tæknisetur með sérstakri áherslu á tækniinnviði og aðstöðu til rannsókna og nýsköpunar sem kallar á mikinn tækjabúnað. Nefna má alþjóðlegt samstarf um rannsóknainnviði, innviði í formi gagna og upplýsinga og stefnumótun um opin vísindi og aðgerðir þar að lútandi. Breyttu lagaumhverfi er ætlað að stuðla að endurnýtingu opinberra gagna.

Virðulegur forseti. Ég hef þá farið yfir nefndarálit og mínar helstu hugleiðingar um þessa mikilvægu þingsályktunartillögu sem ég vona að okkur lánist að samþykkja hér hið fyrsta.