154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[16:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er að ýmsu leyti ágætistillaga. Eins og ég kom inn á í andsvari áðan finnst mér áhugavert að það sé ekki minnst neitt á grunnrannsóknir í þessari tillögu, sem er grundvallaratriði í þessum geira þegar allt kemur til alls. Mig langaði til að bera aðeins saman fjármögnun og þau markmið sem hafa verið á undanförnum árum í þessum málaflokki. Í fjármálaáætlun á hverju ári eru sett fram ákveðin markmið, viðmið um hvaða árangri á að ná með opinberum fjármunum með ýmsum mælikvörðum. Mælikvarðarnir eru mjög áhugaverðir.

Svo ég fari í fjármálaáætlun frá 2020 eða 2021, allavega fyrir nokkrum árum síðan, þá er talað um nokkur markmið. Eitt markmiðið er að styrkja rannsóknastarf og umgjörð þess. Þar undir eru þrír mælikvarðar; ritrýndar birtingar háskóla, þriggja ára meðaltal, hlutfall kvenna meðal prófessora og hlutfall akademískra starfsmanna undir 40 ára, sem sagt fastráðnir starfsmenn. Staðan 2019 voru 2.294 ritrýndar birtingar háskóla, þriggja ára meðaltal 2.300. Það átti að ná markmiðinu um 2.625 árið 2021 og 3.125 árið 2025. Á sama tíma áttu að vera komnir 2.000 fastráðnir starfsmenn, þar af 800 undir 40 ára aldri. Hlutfall kvenna meðal prófessora átti að vera komið upp í 41%, úr 32%. Staðan í núgildandi fjármálaáætlun með sömu markmið, að styrkja rannsóknastarf og umgjörð þess — þar eru ritrýndar birtingar ekki nándar nærri þær sömu og í gömlu fjármálaáætluninni, þ.e. staðan 2022 er 1.563 þegar markmiðið fyrir 2021 átti að vera 2.625. Svolítið áhugavert. Markmiðið núna fyrir 2028 er að þá eigum við að vera komin í 1.800 ritrýndar greinar, færri en þær voru 2019. Allt í lagi, merkilegt. Hlutfall kvenna meðal prófessora hefur batnað og stefnir í að vera nokkurn veginn á pari við það sem áætlað var. Hlutfall akademískra starfsmanna er núna komið undir flokkinn um aukin gæði náms og námsumhverfis og það er búið að breyta kvarðanum, farið í prósentu í staðinn fyrir fjölda. Fjöldi skiptinema sem eru þarna undir líka á að vera kominn í 2.200 árið 2028, þ.e. erlendir skiptinemar á Íslandi, og 1.400 Íslendingar erlendis sem er svipað og var gert ráð fyrir í fyrri fjármálaáætlun. Þetta eru ekki alveg sömu ár, það áttu að vera 800 íslenskir skiptinemar erlendis og 2.000 erlendir hér á Íslandi árið 2025. Staðan 2022 er 1.000 og 1.600, það virðist ganga nokkuð vel upp á það að gera. En þetta er, ef má orða það þannig, grundvöllur fjármögnunarinnar þegar allt kemur til alls. Þetta er það sem kostar, beinir peningar, þegar verið er að tala um t.d. grunnrannsóknir og þess háttar. Þarna er verið að sækja fólk einmitt í framhaldsnám, dálítið mikið, þó nokkuð mikið.

Ég átta mig í rauninni ekki alveg á því hvernig þessi framtíðarsýn passar við fjármálaáætlun eins og hún hefur verið sett fram á undanförnum árum. Fyrst þessi tillaga er komin núna með hinum ýmsu markmiðum og aðgerðum þá býst ég við að það verði þó nokkur uppfærsla á málefnasviði háskóla í fjármálaáætlun í vor til að endurspegla þessa þingsályktunartillögu að einhverju leyti. En það má samt ekki glata þeim mælikvörðum sem eru þegar til staðar því þeir eru góðir, eins og fjöldi ritrýndra birtinga, fjöldi háskólanema o.s.frv. Þessir mælikvarðar endurspegla að mjög miklu leyti það fjármagn sem er að fara í málaflokkinn og hvaða árangri við erum að ná með því. Þó að ákveðin baunatalning, fjöldi nemenda o.s.frv., segi okkur ekkert endilega mikið, því að það er rosalega margt á bak við háskólanám sem birtist kannski þó nokkru seinna, þá höfum við samt góða reynslu af því, bæði varðandi eftirágreiningar sem hafa verið gerðar á verkefnum sem hafa farið í gegnum Rannsóknasjóð og líka Tækniþróunarsjóð, sem er svo sem á öðrum vettvangi. Við verðum í rauninni að grundvalla þetta þekkingarsamfélag held ég dálítið mikið betur. Það er eitt að telja fjölda ritrýndra greina sem eru birtar og hversu margir nemendur fara erlendis í nám og hversu margir koma hingað þegar umhverfið er eins kvikt og við höfum orðið vitni að á undanförnum árum. Það er rosaleg ásókn atvinnulífsins inn á þennan vettvang og ákall um að koma til móts við þær þarfir, sem er að vissu leyti dálítið áhugavert og er með réttu ákveðinn vettvangur, en hann má aldrei vera á kostnað grundvallarins sem eru einmitt grunnrannsóknir, grunnur þess fræðasamfélag sem við byggjum í rauninni alla þróun á í kjölfarið og hvað hann hefur upp á að bjóða. Mér finnst mælikvarðarnir eins og þeir koma fram ekki vera alveg nógu gagnsæir, þeir mættu vera betri og ég vonast til þess að þau markmið sem koma fram hérna geri það að verkum að við verðum upplýsingamiðaðri í fjármálaáætlun núna í vor og með fjármögnunina þá sérstaklega í kjölfarið, því ef þetta er í alvörunni það sem Alþingi og framkvæmdarvaldið og ráðherra vill að gerist þá kemur það þegar lögð er fram fjármálaáætlun og síðan fjárlög og það er verið að sýna á peninginn sem þetta kemur til með að kosta. Það er ekkert hægt að hlaupast burt frá því, þetta verður ekkert ókeypis. Það gerist ekkert sjálfkrafa að fólk gefi vinnu sína, eins mikið og vísindamenn gera það, ég verð að segja að ég þekki það, eins og með alþingismenn þá er ekkert til sem heitir yfirvinna eða neitt svoleiðis. Verkið er einfaldlega klárað og ef það þarf næturvinnu o.s.frv. þá gerist það.

Ég held að við þurfum að taka okkur taki hérna og sýna aðeins betur á spilin, sjá aðeins betur hvert peningarnir eru að fara í samvinnu við fræðasamfélagið. Það er líka margt sem er verið að segja hérna í tillögunni, við viljum leggja áherslu á hitt og þetta. Já, en það er líka akademískt frelsi. Það er ekki í stjórnarskrá enn þá, vonandi næst það, það er bara í lögum eins og er, en það er samt í lögum. Akademískt frelsi snýst dálítið um að stjórnvöld séu ekki að skipta sér af því hvað sé verið að gera og hvernig sé verið að gera það heldur einfaldlega að leggja ákveðnar áherslur, kalla fram ákveðin verkefni og þess háttar. Það kemur í gegnum t.d. fjárheimildir til hinna ýmsu mismunandi sjóða sem eru sérhæfðir á einn hátt eða annan, en það er síðan alltaf fræðasamfélagsins að ganga í það, með tillögum að verkefnum og mati á því hvað er raunhæft eða fræðilegt eða áhugavert, ekki endilega á forsendum þess að það sé hagnýtanlegt á allra næstu misserum. Verkefni getur þess vegna verið áhugavert, það skiptir ekki máli. Fræðasamfélagið hefur þróast á dálítið áhugaverðan hátt að undanförnu hvað það varðar og ég held að við þurfum kannski að taka pínuskref aftur á bak með það, af því að fjármagnið hefur að einhverju leyti þróast út í að vera markmiðssettara frekar en almennara. Það gefur í rauninni möguleikana á að það sé ekki verið að rannsaka — ja, akademíska frelsið er allavega mjög flókið á þann hátt. Ég kalla eftir því að við hugum aðeins að því í framkvæmd á þessari þingsályktunartillögu og ég hlakka til að sjá fjármálaáætlunina núna í vor því ég ætla að leita að merkjum um að það sé í raun og veru verið að gera betur í þekkingarsamfélagi á Íslandi, að vísu einungis til ársins 2025. Ég hlakka til þess að sjá 2026 o.s.frv.