135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

málefni lögreglunnar.

[15:17]
Hlusta

Dýrleif Skjóldal (Vg):

Herra forseti. Í ljósi nýliðinna atburða þar sem ráðist var á lögreglumenn á Laugaveginum þar sem þeir voru við störf og áttu í vök að verjast, langar mig að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, hvað hann hyggist gera til þess að bæta stöðu lögreglumanna í starfi án þess að vopnavæða lögregluna.

Enn fremur langar mig til að fá svör við því hvaða leiðir hæstv. ráðherra sjái færar til þess að laða fleira fagfólk í lögregluna og hve miklu ráðherrann hyggst kosta til.

Í þriðja lagi langar mig að vita hvort hæstv. ráðherra telji að það þurfi að launa stéttina í samræmi við mikilvægi hennar til þess að hægt sé að rjúfa þann vítahring sem hin almenna lögregla er komin í með því að stöður eru mannaðar af ófagmenntuðu fólki þar sem ekki er til nóg af fagfólki.

Í fjórða og síðasta lagi: Hve margir útskrifast árlega frá lögregluskólanum og hvað væri æskilegt að þeir væru margir til þess að anna eftirspurn?