139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:23]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Íbúðalánasjóður er með ríkisábyrgð og nú á fjárlögum sem verið var að ræða fyrir örfáum dögum minnir mig að — ég er ekki með þingskjalið hjá mér, fjárlögin í 2. umr. — sú ríkisábyrgð væri milli 700 og 800 milljarðar. En það dugði ekki til því að hæstv. fjármálaráðherra fór fram á það í fjáraukalögum að bæta um betur og setja 30 milljarða inn í sjóðinn líka. Það er augljóst að þarna er verið í einhverri bókhaldsleikfimi, enda kemur það fram í því svari sem bæði ég og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir töluðum um að skuldir sveitarfélaganna við Íbúðalánasjóð eru um 44 milljarðar vegna kaupa á félagslegu húsnæði. Og þó svo að vanskilin séu ekki upp á nema lítið brot af þessari upphæð vil ég benda þingmanninum á að hér varð efnahagshrun og mikill hluti af þessum vanskilum er í frosti. Fólk er ekki búið að fá úrlausn sinna mála vegna þess að ríkisstjórnin er svo verklaus við að hjálpa skuldugum heimilum. Svo kemur líka fram í svarinu að ekki er búið að afskrifa nema brotabrotabrot af því sem þarf að afskrifa vegna þess að afskriftir hjá Íbúðalánasjóði koma ekki til fyrr en sveitarfélög eru komin til eftirlitsnefndar sveitarfélaganna. Við skulum því hafa stærðirnar á þessu alveg í lagi.

En mig langar að spyrja þingmanninn: Hvað finnur hún því til foráttu að rannsaka Íbúðalánasjóð allan frá upphafi og ástæðu þess að Byggingarsjóður verkamanna varð gjaldþrota þegar Íbúðalánasjóður var stofnaður og honum var bjargað inn í Íbúðalánasjóð og allar þær skuldir og gjaldþrot sem félagslega íbúðakerfið sem Jóhanna Sigurðardóttir kom á fót voru settar þarna inn? Hvers vegna eigum við ekki rannsaka sjóðinn frá upphafi til enda í stað þess að taka lítinn bút út úr honum og rannsaka?