140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

fíkniefnaneysla ungmenna og forvarnir.

295. mál
[18:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Þetta er síðasta fyrirspurn mín að þessu sinni varðandi lýðheilsu og velferð barna og unglinga. Hún snýr að áfengis- og fíkniefnaneyslu.

Það vakti athygli mína núna í fjárlagagerðinni að Hagstofan, sem hefur birt árlega tölur um sölu og neyslu áfengis, hefur hætt að safna upplýsingum um áfengissölu sökum niðurskurðar á útgjöldum. Ég veit að velferðarráðherra hefur óskað eftir því að fá upplýsingar frá Hagstofunni um umfang þeirrar upplýsingasöfnunar sem hún hefur staðið að varðandi sölu og neyslu áfengis. Hann svaraði líka fyrirspurn hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um sölu og neyslu áfengis og sagðist mundi skoða með þar til bærum yfirvöldum hvort koma mætti upplýsingasöfnuninni aftur á eða hvort koma mætti henni við annars staðar í stjórnkerfinu. Þingflokkur Framsóknarflokksins lagði til að settir yrðu fjármunir í að halda þessari könnun áfram.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að fylgjast gaumgæfilega með þróun og neyslu unglinga og barna á fíkniefnum og áfengi. Þetta er okkar mesta áhyggjuefni. Þetta er nokkuð sem við viljum sannarlega útrýma. Ég veit að það er hægara sagt en gert, en hvet samt ríkisstjórnina í heild sinni til að fylgjast vel með.

Ég verð að segja fyrir mína parta að það var ekki jákvætt að þessari upplýsingaöflun skyldi vera hætt. Mér fannst menn gera hálfpartinn lítið úr mikilvægi þess að halda henni til streitu.

Ég held að sé ágætt að fá svör við því hjá hæstv. velferðarráðherra hvernig staðan sé og hvort megi koma þessari upplýsingasöfnun fyrir einhvers staðar annars staðar, hvort einhver önnur stofnun geti komið þar að. Fyrirspurnin lýtur reyndar að þessari neyslu almennt. Ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra mun svara mér hér á eftir.