141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að brýna raustina þannig að mál mitt komist til skila fyrir öðrum samtölum. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og já, ég eyddi mestum af tíma mínum í að fjalla um þá von sem ég hafði í brjósti um að um þetta mundi ríkja meiri sátt, loksins þegar við erum komin að því að samþykkja rammaáætlun. Þær væntingar hafði ég og ég tel að hægt eigi að vera að sætta ólík sjónarmið til að ná niðurstöðu, en tíminn er að fara frá okkur.

Hv. þingmaður spyr um vatnsaflskostina. Já, ég taldi það og tel að ég hafi komið því á framfæri í ræðu minni áðan að fleiri vatnsaflskostir í nýtingu hefðu verið til að skapa meiri sátt. En ég segi líka, virðulegi forseti, að ég tel að virkjunarkostir á Reykjanesi hefðu átt að fara í biðflokk í staðinn og að þarna sé verið að skekkja þetta dæmi.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði síðast um, þá hef ég þá skoðun að Alþingi geti líka tekið faglega afstöðu til röðunar í flokka. Nú er þetta komið á endapunkt, til lýðræðisstofnunar landsins þar sem 63 þingmenn eiga að taka ákvörðun um þetta, segja já eða nei eða sitja hjá. Virðulegi forseti. Ég tel að hinn þinglegi ferill hjá nefndum, þar sem gestir koma, aðilar senda inn umsóknir og við ræðum málin, sé fagleg vinnubrögð og að við alþingismenn getum tekið svona ákvörðun, byggða á gögnum sem lögð eru fram af sérfræðingum og okkur vitrara fólki hvað þetta varðar. Virðulegi forseti, við getum haft það í okkar höndum að vega og meta þessi gögn og taka endanlega ákvörðun.

Svar mitt er því já við því að Alþingi hefði getað breytt þessu. Ég hef alltaf skilið hlutina þannig og ég blæs á að Alþingi geti ekki tekið faglega (Forseti hringir.) afstöðu eftir vinnu í þingnefnd.