141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í þessari fyrstu ræðu minni við 2. umr. um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða ætla ég að fjalla almennt um orkumál á Íslandi, enda er tilgangurinn með tillögunni að búa til ramma um þau mál til framtíðar, marka stefnu sem hugmyndin var að gæti lifað af ólíkar ríkisstjórnir.

Íslendingar framleiða um 99% af þeirri orku sem nýtt er hér innan lands á endurnýjanlegan hátt, umhverfisvæna orku. Það er heimsmet og skyldi engan undra enda er ótrúlegt að svo stór hluti þeirrar orku sem framleidd er í einu landi skuli vera unnin á umhverfisvænan og endurnýjanlegan hátt. Íslendingar státa sig oft af þessu meti, leggja það oft til málanna í samskiptum við aðrar þjóðir að við getum leiðbeint öðrum um orkumál, hvernig megi virkja sem best umhverfisvæna og endurnýjanlega orku. Það er þess vegna stundum svolítið sérkennilegt að fylgjast með umræðunni hér innan lands þar sem menn finna þeirri orkuframleiðslu jafnvel allt til foráttu, telja hana jafnvel vera í einhvers konar andstöðu við umhverfisverndarsjónarmið. Reyndar minnir slík umræða oft á umræðuna um stjórn fiskveiða því að rétt eins og í orkumálunum státa Íslendingar sig oft af því í samskiptum við aðrar þjóðir að við getum kennt mönnum eitt og annað um stjórn fiskveiða á meðan umræðan hér heima er öll á þeim nótum að allt sé ómögulegt í því hvernig haldið er á sjávarútvegsmálum á Íslandi.

En við getum sannarlega leyft okkur að vera stolt af orkuframleiðslunni og hvernig að henni er staðið á Íslandi, bæði út á við og inn á við. Hugmyndin með rammaáætlun var að eyða þeim efasemdum sem hafa verið til staðar um að alltaf væru teknar skynsamlegar og umhverfisvænar ákvarðanir í orkumálum svo ekki færi á milli mála að þau verkefni sem ráðist yrði í til langrar framtíðar hefðu verið yfirfarin á faglegan hátt með tilliti til umhverfisverndarsjónarmiða auk annarra sjónarmiða sem að sjálfsögðu þarf að leggja til grundvallar þegar teknar eru ákvarðanir um virkjanir.

En eftir hátt í 14 ára vinnu, faglega vinnu, við gerð þessarar áætlunar hefur hún nú verið sett í uppnám og sett í pólitískar skotgrafir eins og því miður allt of mörg mál á þessu kjörtímabili. Það er auðvitað mjög dapurlegt ef það verða örlög þeirrar vinnu og ekki bara fyrir núverandi ríkisstjórn heldur fyrir stjórnvöld í landinu til langrar framtíðar og allan almenning sem á mjög mikið undir því að hér verði til næg orka til að standa undir uppbyggingu á atvinnutækifærum og að sjálfsögðu að næg orka verði til að hér megi áfram eiga sér stað umhverfisvæn framleiðsla ýmiss konar varnings. Slík framleiðsla sem hér hefur vaxið á undanförnum árum og áratugum á nú líklega hvað stærstan þátt í því að Íslendingar fóru ekki verr út úr efnahagshruninu en raun varð, þ.e. að við héldum velli og hefðum náttúrlega getað unnið okkur miklu hraðar út úr því ef skynsemi hefði ráðið för við stjórn efnahagsmála, en það er önnur umræða.

Aftur að orkumálunum. Mikilvægt er að huga að því að orku þarf í nánast alla þá starfsemi sem menn taka sér fyrir hendur og sérstaklega í framleiðslugreinum. Við Íslendingar höfum á undanförnum árum byggt upp heilmikla framleiðslu á sviði stóriðju, einkum og sér í lagi í álframleiðslu. Í rauninni er tvöfaldur ávinningur fyrir umhverfið í því fólginn að Íslendingar hafi byggt upp þá álframleiðslu innan lands vegna þess að þar erum við að framleiða umhverfisvænan málm á umhverfisvænan hátt. Þegar ég segi að ál sé umhverfisvænn málmur á ég við að sú þróun að menn séu farnir að nota ál í ríkari mæli en aðrar þyngri málmtegundir, til dæmis við framleiðslu á bifreiðum og flugvélum, leiðir af sér gríðarlega mikinn sparnað á útblæstri vegna þess að léttari bílar eyða minna af eldsneyti. Þar með erum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum við að framleiða umhverfisvænni samgöngutæki og umhverfisvænni byggingar svo eitthvað sé nefnt.

Ef menn hefðu byggt til að mynda álver sem framleiddi jafnmikið ál og við framleiðum á Íslandi einhvers staðar annars staðar í heiminum, ég gæti nefnt Saudí-Arabíu sem dæmi því að umfangsmiklar framkvæmdir í byggingu álvera hafa verið þar, þá hefði sú framleiðsla leitt til miklu, miklu meiri útblásturs og mengunar en hún hefur leitt til á Íslandi. Þegar kemur að loftslagsmálum verðum við nefnilega að hugsa um heiminn sem heild og líta á Ísland sem þátttakanda í því að skapa betra andrúmsloft fyrir heiminn allan.

Auðvitað fylgir því alltaf eitthvert rask þegar ráðist er í virkjunarframkvæmdir, það er óhjákvæmilegt. Það að byggja bæi og borgir eða þess vegna býli hefur auðvitað áhrif á umhverfið. Maðurinn hefur áhrif á umhverfi sitt. En þá er mikilvægt að það sé gert á þann hátt að umhverfið skaðist sem allra minnst á því. Það hefur verið haft að leiðarljósi við ákvarðanatöku um framkvæmdir. Ég minni á að þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar margra stjórnarliða, meira að segja hæstv. forsætisráðherra, þegar kemur að orkumálum og stóriðju þá studdu nú langflestir, a.m.k. langflestir hv. þingmenn Samfylkingarinnar, þær framkvæmdir sem ráðist var í á síðasta áratug. Enda óþægilegt að ímynda sér hvernig ástandið væri á Íslandi núna ef ekki hefði verið farið í þær framkvæmdir sem gerðu þá miklu framleiðsluaukningu sem átt hefur sér stað í landinu á undanförnum árum og þá miklu gjaldeyrissköpun sem því hefur fylgt, gjaldeyrissköpun sem hefur raunar haldið okkur á floti efnahagslega eins og ég nefndi hér í upphafi.

Þetta hefur vissulega allt áhrif á umhverfið og tilgangurinn með rammaáætlun var sá að lágmarka þau áhrif, ná sem bestu samspili milli framleiðslu á umhverfisvænni orku fyrir Ísland og umheiminn, en líka að vernda íslenska náttúru. Við þekkjum ýmis dæmi um að virkjanir hafi jafnvel haft, leyfi ég mér að segja jákvæð áhrif á umhverfið. Lítum til dæmis á virkjanirnar í Soginu, alveg sérstaklega fallegar virkjanir, Írafossstöð og Ljósafossstöð, sem í rauninni bæta umhverfið, gera það alveg sérlega aðlaðandi og um leið framleiða orku, sem í upphafi skipti sköpum á höfuðborgarsvæðinu við að draga úr mengun í nánasta umhverfi fólks. Ljósafossstöð sem reist var 1937 gerði mönnum kleift að nota rafmagnseldavélar í Reykjavík en fram að þeim tíma hafði þurft að nota kolaeldavélar og oft og tíðum kolakyndingu líka. Mengunin í Reykjavík var því miklu meiri og auðvitað mjög óholl fyrir íbúana þangað til Ljósafossstöð var reist 1937, virkjun sem fer mjög vel í umhverfinu og breytti ótrúlega miklu fyrir samfélagið, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað með þær stóru virkjanir sem hafa verið reistar á undanförnum áratug, hafa þær haft mikil og jákvæð áhrif á líf almennings? Þær hafa svo sannarlega gert það vegna þess að þær eru ein af meginstoðunum í þeirri uppbyggingu velferðar sem varð til á seinni hluta 20. aldar. Það verður ekki fram hjá því litið að ef ekki hefði verið ráðist í þær framkvæmdir, sem vissulega höfðu nokkur áhrif á umhverfið, væru kjör alls almennings á Íslandi mun lakari og við værum miklu verr í stakk búin til að halda uppi þeirri velferð sem Íslendingum þykir eðlileg og nauðsynleg. Það er þróun sem hlýtur almennt að teljast jákvæð að við framleiðum meiri verðmæti og búum þau til með umhverfisvænni orku. Ef sú orka yrði til annars staðar í heiminum mundi hún skapa miklu meiri mengun og hafa miklu verri áhrif á umhverfið.

Menn hafa verið að prófa sig áfram með eitt og annað í orkumálum. Í Þýskalandi og mörgum Evrópuríkjum er orðið mjög áberandi að sjá húsþök þakin sólarrafhlöðum. Að mínu mati er mjög lítil prýði að því, sérstaklega í gömlum, fallegum þýskum bæjum. En sums staðar er þeim raðað út á akra, og er svo sem ekki fallegt þar heldur, en menn telja það þó þess virði vegna þess að með því móti tekst þeim að framleiða orku án þess að brenna kol eða olíu og valda mengun í andrúmsloftinu.

Svo eru það vindmyllurnar sem eru raunar orðnar algjör plága sums staðar í Evrópu, í Danmörku, ekki hvað síst á Jótlandi, og í Norður-Þýskalandi, þar sem vindmyllur þekja fleiri, fleiri tugi eða hundruð ferkílómetra. Og þetta eru engar smávindmyllur. Ég held reyndar stundum að þegar menn hugsa um vindmyllur sjái þeir fyrir sér litlar vindmyllur eins og eru settar á þök sums staðar á býlum í Evrópu eða í Kristjaníu í Kaupmannahöfn. Það er kannski það sem hv. þingmenn hafa í huga, sumir hverjir í stjórnarliðinu, þegar þeim verður hugsað til vindmyllna og sjá þær sem einhverja lausn. Ég er ekki að segja að ég sé á móti því að menn geri tilraunir með vindmyllur. En þær eða aðrar leiðir sem menn hafa verið að skoða til að framleiða umhverfisvæna orku eiga hins vegar mjög erfitt með að keppa við þær leiðir sem Íslendingar hafa farið til þessa, vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir.

Lítum aðeins á dæmið um vindmyllurnar vegna þess að nú ætlar Landsvirkjun að reisa tvær vindmyllur í tilraunaskyni, og hefur þegar reist eina. Hún afkastar þegar best lætur, þegar mest rok er og hámarksnýting, 900 kílóvöttum, sem er talsvert afl, enda er þetta ákaflega stór vindmylla. En hvað ef menn ætluðu nú að framleiða jafnmikla orku og Kárahnjúkavirkjun framleiðir með slíkum vindmyllum? Hvað þyrfti þá margar vindmyllur? Ja, þær þyrftu að vera hátt í tvö þúsund og leggja undir sig svæði sem væri rúmlega 20x20 kílómetrar, þ.e. ef það væri ferningur. Það væri kannski ekki hægt að koma þeim öllum fyrir á ferningi en ef það væri ferningur væri það 21x21 kílómetri, þ.e. ef við notum varfærin viðmið um hvað þarf að vera breitt bil á milli vindmyllnanna, sem þýðir svæði upp á 441 ferkílómetra. Það er hátt í átta sinnum stærðin á Hálslóni, uppistöðulóni Kárahnjúkavirkjunar, áttföld stærð lónsins við Kárahnjúka. Væri það umhverfisvænt að leggja svo stóran hluta landsins undir risastórar vindmyllur?

Ég nefni þetta vegna þess að menn verða auðvitað að setja þessa hluti í samhengi. Við þurfum orku og við munum þurfa enn meiri orku til framtíðar, ekki bara Íslendingar heldur mannkynið, og einhvern veginn verðum við að framleiða þá orku. Ef við viljum forðast það að brenna gasi, olíu eða kolum þurfum við að framleiða umhverfisvæna, endurnýjanlega orku, en hvaða leið sem menn fara hefur það áhrif á umhverfið. Þær leiðir sem við Íslendingar höfum farið með jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum eru þær leiðir sem hafa haft hvað minnst áhrif á umhverfið og eru þannig á allan hátt umhverfisvænastar. Ef menn telja að heimurinn komist af án þess að framleiða meiri orku til framtíðar verða menn að svara því hvernig það á að geta átt sér stað. Jafnvel þó að við leitum allra leiða til að spara orku fjölgar fólki í þróunarlöndum, risastórum löndum eins og Kína og Indlandi, hratt. Og þeir hópar í þeim löndum sem geta leyft sér að njóta bærilegra lífsgæða stækka það hratt að óhjákvæmilegt er að orkuþörf heimsins aukist til mikilla muna. Því verðum við Íslendingar að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að sú orkuframleiðsla hafi sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið.

Aftur að vindmyllunum. Í Bandaríkjunum rétt eins og í Evrópu hafa menn verið að fjárfesta töluvert í vindmyllum og reisa það sem menn kalla „wind farm“ — ætli við getum ekki kallað það vindorkubú á íslensku — ekki hvað síst í Oregonfylki. Það var reyndar til umræðu fyrir nokkrum dögum að Kínverjar hefðu haft áhuga á því að kaupa mörg vindorkubú í Oregon en Bandaríkjaforseti hefði komið í veg fyrir það vegna þess að hann teldi að það væri ógn við öryggi Bandaríkjanna að selja frá sér þá orkuframleiðslu. En tökum dæmi af einu vindorkubúi í Oregon sem heitir Shepherds Flat, við skulum kallað það Smalasléttu á íslensku. Þetta vindorkubú á Smalasléttu í Oregon afkastar 845 megavöttum af raforku með 338 vindmyllum. Þetta eru engar smávindmyllur, þetta eru meira að segja miklu stærri vindmyllur en þær vindmyllur sem Landsvirkjun er að prófa sig áfram með. Hver og ein afkastar 2,5 megavöttum, samanlagt eru 845 megavött á Smalasléttu í Oregon.

Þessi 845 megavött, sem menn kannski sjá að eru fleiri megavött en afl Kárahnjúkavirkjunar er, skila hins vegar bara 2 teravattstundum á ári á meðan Kárahnjúkavirkjun, sem er ekki nema 670–690 megavött, skilar meira en tvöfaldri þeirri raforku, 4,6 teravattstundum. Svoleiðis að vindorkubú upp á 845 megavatta afl skilar 2 teravattstundum á ári en Kárahnjúkavirkjun skilar 4,6 teravattstundum. Það er vegna þess að vatnsaflsvirkjanir skila stöðugri orku, þær framleiða jafnt og þétt sama magn af orku og dæla út í kerfið á meðan það er miklu sveiflukenndara, eðli málsins samkvæmt, í vindorkubúunum.

Í þessu felst ekki aðeins óhagræði, þ.e. að menn fái minna út úr túrbínunum, heldur hefur þetta líka þau áhrif að orkan er ekki jafngóð söluvara vegna þess að þeir sem kaupa orkuna þurfa að geta reitt sig á að hún skili sér jafnt og þétt. Þar af leiðandi þarf mörg vindorkubú á ólíkum stöðum til þess að skila tiltölulega jöfnu orkustreymi. Þessi samanburður, þetta eina dæmi sýnir okkur hagkvæmnina sem í því felst að framleiða orku með vatnsafli. Bæði leggur það undir sig minna landrými, skilar meiri orku úr túrbínunum og stöðugri orku og er því vænlegasti valkosturinn þegar kemur að því að framleiða orku. (Forseti hringir.) Þar af leiðandi — virðulegi forseti, nú er ég rétt að byrja, ég var bara búinn með innganginn. Ég verð að biðja hæstv. forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.