141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum nú stödd hér þegar nokkuð er liðið á aðventuna til að ræða þetta mál að næturlagi. Í nótt kemur fyrsti jólasveinninn til byggða og kannski eru einhverjir með það hlutverk hér inni að þurfa að sinna því, ekki ólíklegt.

Ég vil taka undir, virðulegi forseti, það sem hér hefur komið fram varðandi það að við söknum þeirra ráðherra sem um ræðir. Ég vil hrósa formanni umhverfis- og samgöngunefndar fyrir að hafa setið hér mjög dyggilega undir umræðunni og tekið þátt í henni að einhverju leyti. Það eru örfáar undantekningar sem eru á stjórnarliðunum í salnum en það vantar tilfinnanlega ráðherra þessara málaflokka og ekki síður hv. þm. Mörð Árnason sem hefur komið hingað í pontu í dag og verið að gera sig breiðan yfir því að vera umsjónarmaður þessa máls á vegum umhverfis- og samgöngunefndar og kvaddi pontu með því. (Forseti hringir.) Ég held að mikilvægt sé að sá ágæti maður sé upplýstur um það að umræðan, ef hún á að (Forseti hringir.) standa hér fram undir morgun, sé í gangi og að óskað sé eftir viðveru hans við umræðuna.