143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að þingsályktunartillögur um byggðaáætlun hafa oft á tíðum verið meira orð en framkvæmdir í verki. Hér er gerð veikburða tilraun til þess að breyta því. Hér eru skilgreind markmið og síðan á ábyrgð hvers þau eru og sá kostnaður sem fylgir viðkomandi verklagi.

Það er alveg rétt að þetta er ekki eins mikil framkvæmdaáætlun og ég hefði gjarnan viljað að byggðaáætlun væri. Það er líka ástæðan fyrir því að ég hef boðað að hér komi ný byggðaáætlun sem byggi á byggðastefnu þar sem verði meira kjöt á beinunum og meiri fjármunir. Allt sem hér er er meira og minna byggt auðvitað á stjórnarsáttmálanum og líka á því sem áður hefur verið gert, svo það sé nú ekki dregið undan. Þetta er viðvarandi stefna og engir kollhnísar í þessu.

Megináherslan hér er lögð á, eins og röðunin sýnir, fjarskipti og raforkumál sem fjallað er um í fyrsta kafla. Í fjárlögum voru tryggðir fjármunir til fjarskiptasjóðs til þess að taka á fjarskiptunum. Í raforkumálum er komið fram frumvarp frá iðnaðarráðherra um jöfnun raforkukostnaðar, auk þess voru settir aðeins auknir fjármunir til niðurgreiðslu á þessum tímapunkti, en tíminn líka notaður til að skilgreina þetta betur.

Ég kem kannski betur inn á sóknaráætlun í seinna andsvari. En hér er einmitt verið að leggja til að sóknaráætlun landshluta verði hluti af byggðaáætlun (Forseti hringir.) og verði þannig nýtt til að (Forseti hringir.) framkvæma stefnu stjórnvalda í byggðamálum.