144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[11:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Á einu erfiðasta fjárlagaári lýðveldistímans, árinu 2010, var gert samkomulag við lífeyrissjóðina til að tryggja kjör örorkulífeyrisþega sem eiga rétt á greiðslum úr lífeyrissjóði. Nú, þegar ástandið í ríkisfjármálum hefur batnað svo mjög að ríkisstjórnin treystir sér til að lækka og afnema skatta, treysta Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sér ekki til að framlengja samkomulagið sem Árni Páll Árnason, þáverandi félagsmálaráðherra, gerði við lífeyrissjóðina. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttur finnst sjálfsagt að rýra lífskjör hjá örorkulífeyrisþegum og ganga enn lengra í að svíkja kosningaloforð til lífeyrisþega um leiðréttingu á kjaragliðnun. Þessi tillaga er vissulega skárri en ekkert, en með henni nær þó ríkisstjórnin fram sparnaði upp á 0,5 milljarða. Þeir fjármunir eru sóttir í vasa örorkulífeyrisþega. Við í minni hlutanum vildum að greiðslur til örorkulífeyrisþega yrðu um 600 milljónum hærri.

Við getum því ekki stutt þessa (Forseti hringir.) tillögu en sitjum hjá.