144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[12:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki bara um skattana heldur minnir mig að nýfjárfestingar á borð við þessar falli ekki undir lög um gjaldeyrishöft. Hið sama á ekki við um þessa fjárfestingu og um hið almenna atvinnulíf hvað gjaldeyrishöftin varðar. Þar strax erum við komin með annan mikilvægan þátt sem þessir aðilar fá umfram hið almenna atvinnulíf. Ég held að gjaldeyrishafta- og gjaldmiðilsþátturinn spili mjög stórt hlutverk í þessu.

Menn vita hvar ég stend varðandi gjaldmiðilinn og allt það og einhverjir hér í salnum geta brosað út í annað þegar ég byrja að ræða þetta eins og það sé eitthvert skemmtiefni. Það er það samt ekki. Ef við horfum bara ískalt á sögu (Gripið fram í.) erlendra fjárfestinga hér á landi er það staðreynd að okkur hefur ekki tekist að vera almennur aðlaðandi kostur fyrir erlenda fjárfestingu, sama hversu góðar eða þröngar aðstæður eru eða hvernig sem aðstæðurnar hafa verið hér á landi. Margir hafa bent á að þar spili gjaldmiðillinn og kannski vantrú á þetta litla myntsvæði ákveðna rullu og ég held að menn þurfi að skoða það fordómalaust.