144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þessari breytingu en um er að ræða 18 millj. kr. tilfærslu sem gerir að verkum að hægt er að fjármagna fyrrnefnt IMMI-verkefni um 3 millj. kr. Nú vantar auðvitað meiri peninga til að klára verkefnið en þetta nægir alla vega til að byrja. Ég vænti þess fastlega að við munum endurskoða málið seinna meir, eins og reyndar kemur fram í greinargerð, að gert sé ráð fyrir því að fjárveitingar fyrir verkefninu í heild verði endurmetnar fyrir gerð frumvarps til fjáraukalaga á næsta ári.

Ég vil að lokum minna á það að IMMI-verkefnið er einn af hornsteinum þess að Ísland hefur síðastliðin fjögur ár þótt mjög áhugavert fyrir erlenda aðila til að fjárfesta í upplýsingatækni. Það er mikilvægt að við höldum í það forskot sem við höfum með því að uppfylla það sem við lögum af stað með árið 2010.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.