145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er mjög snautlegt fyrir stjórnarandstöðuna að hún skuli núna vera að leita logandi ljósi að öllu til að réttlæta það að neita öldruðum og öryrkjum um afturvirkar hækkanir frá 1. maí. (Gripið fram í.)— Stjórnarliðar vildi ég sagt hafa, góðir landsmenn.

Það er svo ömurlegt að það skuli vera reynt að berja þetta niður með einhverju talnaflóði úr fjármálaráðuneytinu, að það eigi að mæta þangað vígbúin með talnaflóði til að réttlæta það að stjórnarmeirihlutinn ætli ekki að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja afturvirkt. Þessi fundur var ætlaður til að hlusta á sjónarmið þessara hópa en menn virðast ekki treysta sér til þess nema vera vel vígbúnir með talnaflóði. En menn borða ekki kökur eða súlur eða prósentuhækkanir í þessum efnum. Það þýðir ekki endalaust að vera að skylmast við fyrri ríkisstjórn eins og hún sé einhver Don Quixote í þessu máli.