145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:12]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni, ég ætla nú ekki að segja hlý orð í minn garð, en það lá við. (BVG: Jú, víst.) En ég skal alveg taka undir það, auðvitað þyrfti afgangurinn að vera töluvert meiri, sérstaklega þegar við horfum á skuldastöðu ríkissjóðs. Sú leið sem hv. þingmaður ætlar að fara til að auka afganginn á ríkissjóði, ef ég get mér rétt til, hann leiðréttir mig þá hér, er að auka skatta. Ég segi hins vegar: Við eigum að fara þá leið að fara að verja fjármunum ríkisins með aðeins skynsamlegri hætti en við gerum nú. Við eigum að fara að taka upp þá meginreglu að það sé skylda fjárveitingavaldsins að fjármagna grunnskyldur ríkisins áður en menn fara að velta fyrir sér öðrum verkefnum, og skiptir þá ekki máli hvort það heitir Ríkisútvarp eða eitthvað annað, jafnvel þegar kemur að styrkjum til atvinnulífsins sem eru nú orðnir töluverðir.

Ég er sammála því að auðvitað þyrfti afgangurinn að vera meiri. Það ber þó að geta þess að frumjöfnuðurinn er þokkalega góður. Vandinn snýr að blóðpeningunum, ef við getum sagt svo, nettó eru vaxtagreiðslur upp á 52 eða 53 milljarða, ef ég man rétt, en brúttó um 70 milljarðar. Það eru auðvitað fjármunir sem við hefðum annars vegar getað notað til að styrkja hér heilbrigðiskerfið og almannatryggingar og til að lækka skatta, hv. þm. Össur Skarphéðinsson.